143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var þeirrar skoðunar að það væri ekki nægilega ígrundað af hálfu Alþingis og ríkisstjórnarinnar þegar fyrir nokkrum vikum voru sett lög á yfirvinnubann. Það er auðvitað býsna langt gengið í því að svipta fólk samningsfrelsi sínu þegar sett eru lög á yfirvinnubann og ég veit svo sem ekki hvort þess eru nokkur dæmi áður í sögunni. Í framhaldinu er hafin umræða sem ég held að alþingismenn þurfi að íhuga nokkuð. Hafin er umræða um lög á verkföll og fréttaflutningur er af lögum á verkföll þar sem verkfallsaðgerðir eru ekki einu sinni hafnar, þar sem fólk situr enn þá við samningaborð. Fjallað er um lög á verkföll eins og það sé sjálfsagður hlutur sem Alþingi geti gripið til einu sinni í mánuði eða svo þegar það hentar ekki hagsmunum einhverra að fólk sem er ósátt við launakjör sín grípi til þess neyðarvopns og þeirra mannréttinda sem verkfallsrétturinn er. Ef menn ætla að undirgangast lagasetningu og verkföll þannig ætla þeir þá næst að setja þau á flugmenn? Hvað þá um flugvirkja? Eru það þá flugfreyjur næst, strætisvagnabílstjórar eða á að setja lög á öll verkföll tengd samgöngum yfir höfuð?

Nú getur komið upp það neyðarástand að Alþingi þurfi að grípa inn í og það hefur gripið inn í. En ég bið alþingismenn, vegna þeirrar umræðu sem hafin er í samfélaginu, að minnast þess að þetta er neyðarráðstöfun, þetta er algert neyðarúrræði. Á árunum frá 1995–2014, á tæplega 20 ára tímabili voru fjórum sinnum sett lög á verkföll, einu sinni á fimm ára fresti. Ég bið þess vegna þá sem koma að opinberri umræðu um mannréttindi launafólks að fara varlega í því að tala um lög á verkföll eins og sjálfsagðar aðgerðir sem hægt sé að grípa til hvenær sem er.