143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég er svolítið á svipuðum slóðum og hún og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir voru á hér áðan. Það er þessi umræða, við höfum orðið vitni að því í dag hvernig talað er til okkar sem erum þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að þeir sem hafa sérleyfi til að sækja hráefni og aðföng til matvælaframleiðslu sinnar greiði eigandanum fyrir það af þeim umframarði eins og hugmyndafræðin sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði upp með byggði á. Mér hefur þótt þessi umræða ósanngjörn og mér finnst hún líka byggð á svo röngum forsendum vegna þess að hún snýst ekki um það að fjármagna ríkissjóð í sjálfu sér, hún snýst ekki um það að fara ofan í vasa útgerðarmanna til að sækja fjármagn til að rétta af þjóðarskútuna þegar við lentum í efnahagslegum hremmingum. Þetta snýst um prinsippið sem talað er um í auðlindaskýrslunni fyrir árið 2000 og þá var engin vond vinstri stjórn í landinu. Rætt hefur verið um þetta aftur og aftur og ítrekað, talað var um þetta aftur í auðlindaskýrslu sérfræðinga árið 2012, talað er um þetta aftur og aftur og víðar úti um allan heim að eðlilegt sé að þeir sem fá sérleyfi til að sækja sér hráefni til framleiðslu sinnar greiði fyrir það. Það er bara það sem við erum að tala um. Síðan getum við tekist á um útfærslurnar á því en margar tillögur hafa legið því til grundvallar. Fyrrverandi ríkisstjórn hljóp ekkert til og gerði bara eitthvað út í bláinn. Þetta byggði á mjög mikilli vinnu sem unnin hafði verið lengi á undan.

Mig langar aðeins að eiga samtal við hv. þingmann um þetta, þessa umræðu og hugmyndafræðina, líka kannski í ljósi þess að mánuði eftir að núverandi ríkisstjórn sagði okkur að það þyrfti að lækka þessi gjöld í einum grænum hvelli síðasta sumar, það væri algert forgangsmál, fengum við að heyra það í fréttum að þrjú sjávarútvegsfyrirtæki skiluðu tæplega (Forseti hringir.) 30 milljarða kr. hagnaði og gátu greitt út 5 milljarða í arð til eigenda sinna, (Forseti hringir.) við erum ekki að tala um neina gríðarlega fjármuni í þessu samhengi, (Forseti hringir.) þrjú fyrirtæki. Og hvað lækkuðu menn auðlindagjaldið mikið síðasta sumar? Um 3 milljarða.