143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, svo ég haldi áfram með það sem ég nefndi áðan þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafnaðarflokkur, ekki heldur Framsóknarflokkurinn. En ég hef einblínt svolítið á stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessu efni því að ég er mjög hrifinn af stefnu Sjálfstæðisflokksins, en mér sýnist eins og ekki sé verið að fara eftir henni í ljósi þess að stefna flokksins fyrir kosningar, sem byggir á stjórnmálaályktun landsfundarins rétt fyrir kosningar, segir að forgangsraða eigi í þágu grunnþjónustu, og um heilbrigðismál segir að standa eigi vörð um rétt allra landsmanna til góðrar heilbrigðisþjónustu og að allir búi við jafnan rétt og valfrelsi. Í landsfundarályktuninni er sérstaklega talað um örugga heilbrigðisþjónustu.

Nú ætla ég að spyrja hv. þingmann: Man hún hversu mörg prósent landsmanna neita sér um að fara til læknis? Sú umræða var hér fyrr í haust. Við erum með miklu hærra hlutfall í því efni en hin Norðurlöndin. Man hv. þingmaður (Forseti hringir.) hvert hlutfallið var? En það er alveg ljóst að þegar svona mikill hluti, (Forseti hringir.) miklu hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum, neitar sér um að fara til læknis vegna þess að fólk hefur ekki efni á því, þá er ekki örugg heilbrigðisþjónusta fyrir hendi.