143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður vitnaði beint í þá slettu sem ég viðhafði í ræðu um þessa tillögu og ég vona að hann og aðrir vörslumenn íslenskrar tungu fyrirgefi mér að hafa sagt akút. Ég vek þó athygli á því að ég notaði orðið brýnt síðar í sömu setningu þegar ég áttaði mig á þessum mistökum mínum.

Grunnnám í háskólum á ensku, þetta er rétt og er þá ekki í takt við þá málstefnu sem íslenskir háskólar hafa sett sér. Eftir að málstefnan var samþykkt á þingi, vorið 2009, fundaði ég með háskólum, kynnti þeim málstefnuna og óskaði eftir því að þeir settu sér sína eigin málstefnu í takt við þessa málstefnu sem fengi þá umræðu og annað. Vissulega getur verið eðlilegt að einhver námskeið séu kennd á ensku, námskeið sem eiga erindi við alþjóðasamfélagið og sem mikill fjöldi erlendra stúdenta sækir, en þó hef ég því miður heyrt dæmi af því að námskeið séu kennd á ensku þar sem jafnvel engir nemendur eru af erlendu bergi brotnir heldur allir nemendur með íslensku að móðurmáli. Það mundi ég segja að væri hvorki í takt við málstefnuna né þær umræður sem fóru fram í kringum það þegar háskólarnir fóru í þessa vinnu. Þeir héldu margir hverjir opna fundi um málstefnuna og ég var mjög ánægð með þá vinnu.

Sé verið að kenna námskeið á ensku fyrir nemendur með íslensku að móðurmáli finnst mér það vægast sagt bagalegt.