143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

stefnumótun heilsugæslu í landinu.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin sem ég hefði gjarnan viljað að væru skýrari. Ástæða þess að ég vitnaði til þeirrar skýrslu sem Salastöðvarskýrslan var er að þar var Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins borin saman við samninginn sem gerður var við Salastöðina. Hún var miðlæg í skýrslunni og hefur því verið kölluð þetta almennt í daglegu tali. Hún setti viðmiðin fyrir samanburðinn.

Hæstv. ráðherra nefndi að það væri almenn skoðun í gangi um hvernig mætti auka afköst í heilsugæslunni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki mikilvægt að þar séu gæðin skoðuð líka og taki þá ekki undir að þau þurfi að greina sérstaklega í allri greiningarvinnu sem fer fram. Þá vitna ég til gæða og þjónustunnar umfram það sem hægt er að mæla með ánægju en líka hvort einhverjar línur, eins og ég sagði í fyrri fyrirspurn minni, hafa verið lagðar með það að skoða sérstaklega breytt rekstrarform á einhverjum tilteknum heilsugæslustöðvum. Er búið að setja í gang einhverja slíka greiningu í ráðuneytinu?

Að lokum langar mig að ítreka fyrirspurn mína um hvernig Alþingi verður síðan haft með í ráðum í þeirri vinnu.