143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[11:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér kemur til afgreiðslu tillaga velferðarnefndar um afgreiðslu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er 1. flutningsmaður að og ég er meðflutningsmaður.

Sú afgreiðsla sem velferðarnefnd hefur ákveðið að leggja til við þetta mál veldur mér miklum vonbrigðum. Ég tel að hér sé um gríðarlegt framfaramál að ræða. Það kemur fram í nefndaráliti ljóst sé að fjölga þurfi líffæragjöfum þar sem eftirspurn eftir líffærum sé meiri en framboð þeirra og af hálfu nefndarinnar sé ríkur vilji til þess, en engu að síður leggur nefndin til að málinu verði vísað frá.

Í mínum huga hefði verið meira samræmi í því að leggja þá alla vega til að frumvarpinu yrði breytt. En að vísa því til ríkisstjórnar, það er frávísun. Í mínum huga hefði verið betra og meira í samræmi við það sem fram kemur í nefndaráliti að nefndin hefði lagt til breytingu á frumvarpi yfir í þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) þar sem þau efnisatriði sem koma fram í nefndarálitinu væru tiltekin (Forseti hringir.) þannig að það væri skýr vilji þingsins að málið yrði unnið á tilteknum forsendum. Ég get ekki stutt þá málsmeðferð sem hv. nefnd leggur til.