143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna með þessu máli.

Út af fyrir sig held ég að flestir geti verið sammála um að það sé jákvætt skref að stuðla að húsnæðissparnaði í landinu og sú leið sem hér er farin geti í sjálfu sér verið ein leið í þeim tilgangi. Eftir sem áður hafa margvíslegar athugasemdir komið fram við meðferð málsins í nefndinni og umsagnir um málið bera þess að sjálfsögðu merki.

Það sem ég vildi horfa á sérstaklega í þessu stutta andsvari er það sjónarmið sem meiri hlutinn gerir líka grein fyrir í nefndaráliti sínu þegar hann segir að ýmsir hagsmunaaðilar hafi talið að úrræði frumvarpsins nái til of þröngs hóps. Þar er m.a. bent á að þau nái ekki til lífeyrisþega sem ekki hafa neinar launatekjur, ekki heldur til þeirra sem eiga búseturétt hjá húsnæðissamvinnufélagi og standa skil á búsetugjaldi, og þar að auki hafi komið fram að úrræðin nýtist ekki öllum leigjendum húsnæðis að fullu þar sem ákveðinn hópur þeirra hafi ekki þær tekjur sem þarf til að fullri nýtingu verði náð, eins og segir í nefndarálitinu.

Þegar það liggur fyrir að ákveðnir hópar, stórir hópar og mikilvægir, sem frumvarpið nær ekki til, hlýt ég að velta því fyrir mér og spyrja hv. þingmann: Hvernig í ósköpunum er hægt að tala um það, eins og líka er gert í niðurlagi nefndarálitsins, að þetta sé almenn aðgerð? Hvernig má það vera að almenn aðgerð sé þeim annmörkum háð að hún nái aðeins til tiltekinna hópa en stórir hópar, mikilvægir hópar, liggi óbættir hjá garði?