143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er æskilegt að skuldir heimilanna lækki. Það stendur síst á þeim sem hér stendur að tala um það. Ætli aðrir hafi skrifað meira um það á árunum upp úr 2000, þegar skuldir heimila á Íslandi fóru af stað og við urðum skuldugasta eða næstskuldugasta þjóðin innan OECD á rugltímanum, hversu alvarleg og hættuleg sú þróun væri. Auðvitað hefur maður haft af því dauðans áhyggjur lengi og maður vissi að þetta gæti ekki endað öðruvísi en illa. Vandinn er sá að skuldirnar voru orðnar allt of miklar fyrir hrun og þess vegna stóðu menn svo veikt að vígi þegar það högg kom af því við vorum orðin fyrir hrunið og nokkrum árum fyrir hrunið næstskuldsettasta eða skuldsettasta þjóðin innan OECD þegar skuldir á íbúðarhúsnæði eða hjá almenningi voru teknar sem hlutfall af landsframleiðslu.

Jú, það er gott að þessar skuldir lækka. En hvar liggja skuldir heimilanna, hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar? Liggja þær bara inni á heimilunum? Liggja ekki skuldir heimilanna líka hjá ríkinu og sveitarfélögunum? Verðum við ekki líka að velta því fyrir okkur hvorum megin er brýnna að greiða niður þessar skuldir sem við eigum öll saman í ríkissjóði okkar eða sveitarfélaginu þar sem við búum, eða fara í einhverja svona flata aðgerð, sem við skulum vona að komi víða niður þar sem hennar er rík þörf, en við vitum að verulegir fjármunir munu ganga til fólks sem er ekki í neinum einustu erfiðleikum. Og við vitum líka að þessi útfærsla á séreignarsparnaðarleiðinni skapar auðsáhrif hjá fólki sem er orðið það tekjuhátt að það ætti að vera í hvað bestum færum til að ráða við sínar skuldir eins og þær eru núna.

Að lokum þetta, hv. þingmaður. Heimilin í dag eru önnur en þau verða eftir 30 ár. Þetta verða ekki sömu heimilin sem bera byrðarnar af því að skuldsettari ríkissjóður og sveitarfélög munu standa uppi (Forseti hringir.) eftir 10 ár, eftir 20 ár, eftir 30 ár, vegna þessara ráðstafana núna. Það verða heimili barnanna okkar sem gjalda fyrir það.