143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég segi eins og margur annar að ég get tekið undir æðimargt sem fram kom í ræðu hans.

Hins vegar er flestallt sem ég ætlaði að spyrja um fram komið, en mig langar að klykkja út með því sem hv. þingmaður sagði og spyrja hvort það sé réttur skilningur að hann telji að það sé hvorki ástæða, eins og málin standa í dag hjá heimilum í landinu, að koma til móts við þau heimili sem eru með verðtryggð fasteignalán með niðurfærslu þeirra með einum eða öðrum hætti né heldur að gefa fólki tækifæri til þess að greiða inn á höfuðstól lána með svokölluðum séreignarsparnaði. Er það réttur skilningur hjá mér að það sé skoðun hv. þingmanns?