143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

snjómokstur á Fjarðarheiði.

578. mál
[10:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er kannski óeðlilegt að spurt sé um snjómokstur og staðsetningu snjóruðningstækja á Seyðisfirði vegna moksturs á Fjarðarheiði nú þegar sumarið er komið, en engu að síður verður að gera það til að nota tímann fram að næsta vetri.

Tilefni spurningar minnar er að mikil vetrarófærð hefur verið undanfarið og Fjarðarheiði hefur oft verið lokuð. Við skulum hafa í huga að fjölmargir Seyðfirðingar vinna á Héraði og í álverinu á Reyðarfirði og auðvitað öfugt, einhverjir ofan af Héraði vinna á Seyðisfirði.

Veturinn hefur verið það harður og er greinilega það breyttur að mikil ófærð hefur verið. Heiðin er oft lokuð, stundum er hún mjög torfær og stórhættuleg.

Ég minni líka á að þetta er önnur aðalinnkomuleið til landsins fyrir erlenda ferðamenn og allir bílaflutningar fara fram með Norrænu. Ég minni líka á hinn mikla fiskútflutning sem farinn er að vera með Norrænu.

Öll þessi rök eru nægjanleg árið 2014 til að sýna fram á að þetta er ekki í lagi. Þetta verður að bæta. Framtíðarlausnin er auðvitað jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs.

En nú þurfum við að bregðast við og til er tiltölulega einföld lausn. Í dag býður Vegagerðin út snjómokstur og verktakinn er staddur uppi á Héraði. Þegar hefja þarf mokstur fer hann af Héraði og mokar alla heiðina niður á Seyðisfjörð.

Það er tilefni spurningar minnar vegna þess að það væri mjög til að létta undir og gera þetta auðveldara og betra en það er í dag, þ.e. þar til jarðgöngin verða komin, að staðsetja snjóruðningstæki á Seyðisfirði þannig að að morgni, þess vegna kl. 5 að morgni, þegar moka á og mikill snjór er, gætu tækin farið báðum megin frá.

Það mundi að sjálfsögðu stytta tímann um helming, flýta mjög fyrir opnun og auka umferðaröryggi vegfarenda. Um leið gefst tækifæri þegar búið er að opna leiðina, sem er auðvitað aðalatriðið, að gefa sér tíma í að ryðja út ruðningunum.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. ráðherra nú í byrjun sumars, en hún á auðvitað að gilda fyrir næsta vetur og til framtíðar, er þessi: Kemur til álita að hafa sérstakt snjóruðningstæki á Seyðisfirði á veturna til að auðvelda snjómokstur á Fjarðarheiði og flýta honum?