143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

upplýsingar um leynireikninga og aflandsfélög.

[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er ánægjulegt að heyra afstöðu þá sem hv. þingmaður lýsir til haftamálanna og hvernig nálgast beri úrlausn þeirra. Reyndar kveður við svolítið nýjan tón, en mér finnst það mjög jákvætt og tek jafnframt undir að það er ákaflega mikilvægt að menn vinni saman að þessu.

Hvað varðar hins vegar fyrirspurn um upplýsingar um skattundanskot og að slíkar upplýsingar standi skattrannsóknarstjóra til boða þá veit ég ekki annað, ég sá það í einhverri frétt og skildi skattrannsóknarstjóra þannig að þetta snerist ekki um skort á heimildum eða fjármagni, heldur frekar um hversu mikils virði þessar upplýsingar væru, hvort þær væru raunverulega gagnlegar og hvort hægt væri fyrir skattrannsóknarstjóra að kaupa upplýsingar sem fengnar hefðu verið með óljósum hætti og óljóst hvort þær væru raunverulegar og gagnlegar.

Ég treysti því að skattrannsóknarstjóri geti metið þetta og muni hér eftir sem hingað til leita allra leiða til að koma upp um skattsvik. Að sjálfsögðu þarf skattrannsóknarstjóri að hafa ýmsar leiðir til þess, enda skattsvik og skattundanskot mjög dýr fyrir samfélagið. Ég ítreka að ég treysti skattrannsóknarstjóra til þess að leysa úr þessu eins og öðru.