143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við upplifum hér náttúrlega alger rökþrot fulltrúa stjórnarmeirihlutans þegar þeir koma hingað upp og segja að þetta sé agnarlítill hluti, þ.e. auðmennirnir og stóreignamennirnir, sem muni njóta réttar. Það bara gargar á spurninguna: Af hverju má ekki undanskilja þá? Hér er breytingartillaga, að undanskilja þá til að auka réttlætið í aðgerðinni. Hún er almenn, segir hv. þingmaður. Af hverju þarf hún að vera almenn? Hvaða guð ákvað að hún þyrfti að vera almenn? Hvað er fengið með því að hún sé almenn og að auðmenn og stóreignamenn geti notið hennar?

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að fólk á almennum ASÍ-töxtum er ekki ofhaldið af sínum launum. Af hverju aukum við þá ekki hlutfallslegan hlut þeirra í aðgerðinni með því að undanskilja stóreignamenn og hátekjufólk? Hér er tillaga til þess. Nú reynir bara á að stjórnarmeirihlutinn treysti sér til þess að láta eitthvert réttlæti gægjast inn í framkvæmd þessa máls.

Það sem ég hef gagnrýnt í málinu frá upphafi er flokkunin á fólki sem hv. þingmaður heldur fram að sé ekki í málinu. Hún er hér. Þetta er ekki almenn aðgerð fyrir fimm aura nefnilega, jafnvel þó að menn sáldri peningum til auðmanna. Hún er ekki almenn vegna þess að eigendur búseturéttar eru undanskildir. Þeir eru í fullkomlega sambærilegri stöðu gagnvart greiðslu lána sem hvíla á húsnæði þeirra og þeir sem eiga sitt eigið húsnæði, fullkomlega sambærilegri. Af hverju eru þeir undanskildir? Af hverju má undanskilja þá en ekki auðmenn? Af hverju má gera þá að annars flokks borgurum í eigin landi en ekki stóreignafólkið og auðmennina? Það er þarna sem ríkisstjórnarflokkarnir eru bara algjörlega strandaðir á skeri, hugmyndafræðilegu og siðferðilegu. Þeim býðst tækifæri til að koma sér af því skeri með því að samþykkja þessar breytingartillögur þegar þær koma til atkvæða.