143. löggjafarþing — 117. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[00:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil bæta nokkrum orðum inn í þessa umræðu, þau gætu verið miklu fleiri, af því að hér eru stór mál á ferð eins og jafnan þegar sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórn eru rædd. En ég held að nefndarmenn og talsmenn hér hafi komið flestu því til skila sem mikilvægast er að segja bæði í framsögum og nefndaráliti sem nefndin stendur saman að, sem er í sjálfu sér ánægjulegt. Það hefur ekki alltaf verið þannig hér á Alþingi þegar tekist er á um fiskveiðistjórnarmál eða veiðigjöld eða hvað það nú er. En það helgast auðvitað af því að hér er verið að gera tilteknar og takmarkaðar ráðstafanir til aðeins eins árs. Það má kannski segja að í því sé falið visst vopnahlé að ekki er hreyft mikið við því fyrirkomulagi sem er í gildi á yfirstandandi fiskveiðiári.

Framsetningunni á því hvernig farið er með hliðarráðstafanir í kerfinu er þó dálítið breytt lagalega séð. Í staðinn fyrir að í allmörgum bráðabirgðaákvæðum, til viðbótar ákvæðum í lögunum sem voru, sé veiðiheimildum ráðstafað og þeim skipt niður á aðgerðir eins og línuívilnun, byggðakvóta, Byggðastofnunarkvóta, rækju- og skelbætur, strandveiðar og hvað það nú er, er þeim veiðiheimildum safnað saman í einn stóran pott má segja og það verður hlutverk ráðherra að útfæra skiptinguna í reglugerð. Það liggur jafnframt fyrir í málinu og kemur fram í nefndaráliti að um það er vitneskja að ekki eru fyrirhugaðar neinar meiri háttar breytingar á fyrirkomulaginu á þessu á næsta fiskveiðiári að mér skilst.

Ég vil segja það alveg hiklaust að ég skil að mörgu leyti vel hvað fyrir mönnum vakir með þessu. Þetta gæti verið til frambúðar þjálli og skynsamlegri meðferð þessara mála, að það væri visst svigrúm til að vinna sem best úr þessum veiðiheimildum og nota þær með sem skilvirkustum hætti í ljósi aðstæðna og þarfa eins og þær þróast, þó þannig að alltaf lægi fyrir tiltekinn rammi um það, sem Alþingi ætti aðkomu að, hvernig með þessar mikilvægu heimildir væri farið. Þær eru svipaðar eða verða reyndar ívið meiri á næsta fiskveiðiári en þær eru núna, miðað við fulla 5,3% hlutdeild hverrar kvótasettrar tegundar inn í þessar hliðaraðgerðir. Þær eru gríðarlega mikilvægar, það hefur sagan sýnt. Þrátt fyrir allt hafa menn horfst í augu við það nánast frá upphafi kvótasetningar að menn gætu ekki keyrt kerfið bara þannig, ég tala nú ekki um eftir að veiðiheimildir voru gerðar framseljanlegar, menn þyldu ekki í byggðalegu og félagslegu tilliti þær afleiðingar sem það gæti haft, það þyrfti hliðarráðstafanir til að ná fram ýmsum markmiðum. Það geta verið byggðapólitísk markmið, geta verið að einhverju leyti umhverfisleg markmið, félagsleg o.s.frv. Þannig hefur þetta þróast.

Samt sjáum við býsna grimma birtingarmynd kerfisins, eins og það er og hefur verið rekið, einmitt þessa dagana sem Alþingi er að ljúka störfum og vikurnar núna á undan. Þar ber hæst þá stóru ákvörðun eins fyrirtækis að loka allri fiskvinnslu og flytja allar veiðiheimildir frá þremur mismunandi sjávarbyggðum í landinu. Það er á stærri skala en við höfum oftast séð, ef nokkru sinni áður í einni slíkri ákvörðun eins fyrirtækis. Það kemur gríðarlegt högg á atvinnulífið í þremur byggðarlögum, það má nánast líkja því við fallhamarinn í hausinn á stað eins og Djúpavogi og Þingeyri og er auðvitað verulegt áfall fyrir Húsavík.

Þetta er vegna þess, því miður, að mönnum hefur ekki auðnast að ganga þannig frá málum að fullnægjandi byggðafesta væri í fiskveiðistjórnarkerfinu. Meginmistökin eiginlega frá upphafi eru þau að festa ekki einhvern hluta réttindanna við byggðirnar og tryggja fólkinu í landi og byggðarlögunum réttarstöðu í þessu kerfi. Um það voru átök strax í byrjun, í árdaga kvótasetningar 1983 í desember fyrir jólin þegar kerfið var sett á, þá var harkalega tekist á um þetta. Þá þegar vöruðu mjög margir við því að ef eingöngu útgerðinni yrði afhentur þessi mikli réttur og mikla vald sem í honum er fólgið mundi það hafa alvarlegar afleiðingar. Það hefur það svo sannarlega haft.

Auðvitað hefði íslenskur sjávarútvegur þurft að hafa svigrúm og möguleika til að þróast og ég er ekki að segja að það hafi verið raunhæfur möguleiki að frysta ástandið eins og það var 1983. En það má á milli vera þess og hins sem hefur skilið eftir hverja sjávarbyggðina á fætur annarri nánast í auðn borið saman við það sem þær voru áður, stórir og myndarlegir staðir. Raufarhöfn til að mynda, með á sjötta hundrað íbúa þegar best lét, kraftmikið samfélag í mikilli uppbyggingu og miklum, góðum gangi, nú jafn stórlega laskað og veikburða orðið eins og raun ber vitni, fyrst og fremst út af því að allar veiðiheimildirnar hurfu á brott.

Þess vegna fagna ég því sérstaklega að samkomulag tókst um að tryggja Byggðastofnun, sem hefur í vaxandi mæli komið inn í vinnu með þessi mál, verulega aukið svigrúm. Það var ráðherra sjálfur búinn að boða að yrði gert á heimasíðu ráðuneytisins, upp á 1.100 tonn til viðbótar þeim 1.800 sem ákveðið var að Byggðastofnun fengi í verkefni til að styðja sérstaklega viðkvæmar, brothættar byggðir. Nú hefur orðið um það niðurstaða, og er hluti af því að greiða hér fyrir þinglokum, að til viðbótar þessum 1.100 tonnum hafi Byggðastofnun aðgang að að lágmarki 700 tonnum á næsta fiskveiðiári til þess að geta með myndugri hætti komið að lausn þeirra vandamála sem við blasa, liggja fyrir og þarf að takast á við. Hún hefur þá jafnvel nokkurt svigrúm til þess að geta kannski komið við sögu víðar ef á þarf að halda, sem við vonum auðvitað að verði ekki, en það er engin leið að útiloka að upp geti komið viðkvæmar aðstæður víðar.

Þá held ég að þessi aðferðafræði hafi mikla yfirburði í samanburði við hið hefðbundna byggðakvótakerfi, sem er í raun og veru eftiráplástur á sár sem þegar er orðið. Regluverkið í því kerfi er þannig að menn fá uppbætur vegna veiðiheimilda sem eru farnar, eftir á. Það er auðvitað ekki nógu góð ráðstöfun að koma að rjúkandi rústum og ætla að reyna að vinna eitthvað úr því. Það er miklu betra að geta gripið inn í þar sem vandinn er að berja að dyrum og reyna að vinna úr þeirri stöðu sem þá er komin upp.

Ég er alveg sannfærður um að þetta verður til frambúðar betra fyrirkomulag. Kannski ættum við að skoða það í mikilli alvöru að færa mun meira af byggðakvóta og jafnvel allan núverandi byggðakvóta yfir í eitthvert svona form þar sem er byggðafesta, þar sem til nokkurra ára er hægt að veita tilteknar tryggingar og vinna úr málum þannig að menn búi til margfeldisáhrif með samkomulagi við útgerðir sem hafa veiðiheimildir og koma þá til samstarfs um að leggja upp afla til vinnslu í viðkomandi byggðum. Hér hugsar maður sérstaklega um þær byggðir þar sem þó er enn þá einhver lifandi fiskvinnsla eða möguleiki til slíks. Þær eru satt best að segja orðnar ekkert óskaplega margar og ætti ekki að vera ofverkið að reyna að hlúa að því sem þar er eftir, ég tala nú ekki um ef þær eru algjör kjölfesta viðkomandi svæðis.

Við þekkjum að það hefur lengi verið erfitt á Þingeyri, sá staður hefur átt í miklum vanda og ekki er á það bætandi og fyrir norðanverða Vestfirði eða Vestfirði alla að þar veikist enn ein af byggðunum. Vonandi verður hægt að vinna með þau mál og snúa vörn í sókn. Ég vil líka nefna Djúpavog sérstaklega vegna þess að ég er ekki viss um að allir átti sig á hversu gríðarlega mikilvægur útvörður byggðar Djúpivogur er á mjög stóru svæði, sem að öðru leyti er orðið býsna veikt og er í vörn. Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík eru einmitt dæmi um staði sem hafa farið illa út úr þessari þróun. En Djúpivogur hefur með nokkuð sterkri stöðu og góðri þróun undanfarin ár staðið upp úr eins og ljós í myrkri í þessum efnum og er algjör útvörður þess að byggð eyðist ekki frekar eða skreppi saman á stóru svæði á öllum sunnanverðum Austfjörðum. Þar er því um lykilstað að ræða, hvers erfiðleikar gætu haft umtalsverð og keðjuverkandi neikvæð áhrif á stórt svæði ef sú kjölfesta sem þó hefur verið í byggðinni þar og ágætum viðgangi hennar undanfarin ár minnkar eða hverfur.

Þess vegna treysti ég því að Byggðastofnun komi sterkar að málum með þeirri aðferðafræði sem hún hefur verið að móta í tengslum við þetta, sem ég tel líka vera mikla framför. Menn hætti að reyna að beita almennum flötum aðgerðum sem eiga misvel við og við höfum reynslu fyrir að duga einfaldlega ekki ef forsendur byggðar eru komnar niður fyrir visst hættustig. Þá þarf sérstakar ráðstafanir og vinna þarf með þær út frá aðstæðum eins og þær eru þar. Við horfumst í augu við það að sums staðar er byggð orðin svo veik að menn ná ekki einu sinni að nýta sér þau hefðbundnu úrræði sem eru þó til staðar í gegnum atvinnuþróunarfélög eða aðra slíka þætti. Það þarf meira til, það þarf sérstaka vinnu og sérstakt átak og ekki síst að vinna með íbúum byggðanna. Ég fagna því þessu og vona að þetta verði að liði í þeim miklu erfiðleikum sem nú eru.

Hér hafa ræðumenn á undan mér nefnt fréttir dagsins sem voru satt best að segja harla dapurlegar, af rútuflutningum og fluginu á fólki sem farið var með austan af landi eldsnemma í morgun til þess að kynna þeim framtíðarheimilið sem verið er að reyna að lokka fólk til að flytja til í Grindavík á eftir vinnunni. Þetta er með því dapurlegasta sem maður hefur séð mjög lengi í byggðalegu og félagslegu, mannlegu samhengi verð ég að segja.

Virðulegur forseti. Ég held að frágangurinn á þessu máli sé eftir atvikum ágætur og ég hrósa atvinnuveganefnd fyrir að hafa náð að landa þessu saman með þessum hætti og ráðherranum sem hefur lagt sitt af mörkum til að menn gætu í sæmilegum friði lent þessum málum, á grundvelli þess að visst vopnahlé ríki í þeim í bili, að minnsta kosti fyrir næsta fiskveiðiár.

Varðandi veiðigjöldin er meiri og harðari efnislegur ágreiningur um það, ef ég má nefna það mál, frú forseti, þó að það hafi verið rætt hér á undan. Þó má segja að sömuleiðis er jákvætt að samkomulag náðist um að ganga frá því máli þannig, óháð efniságreiningi um innihaldið, fjárhæðir veiðigjalda, lágar, of háar eða of lágar, að þar er um hreina bráðabirgðaákvörðun til eins árs að ræða og lögin að öðru leyti stæðu að því slepptu óbreytt. Það tel ég vera til bóta og manni líður aðeins betur með fráganginn á málinu þannig. Um hitt má þó deila, efnisinnihaldið og það hversu rausnarleg hæstv. ríkisstjórn hefur reynst í garð þeirra sem við höfðum á undanförnum missirum vonast til að gætu lagt sitt af mörkum í að byggja upp samfélagið, m.a. í formi þess að skila einhverjum arði af nýtingu hinnar verðmætu sjávarauðlindar til brýnna og þarfra verkefna svo sem eins og uppbyggingu innviða samfélagsins, samgöngubætur og annað slíkt sem menn horfðu til tekna af sérstöku veiðigjaldi með.

Hvað sem hver segir um allar deilur undangenginna tveggja ára eða svo hygg ég að menn eigi nú eftir að minnast þess, ef þeim verður hjálpað til að muna það, að álagning sérstaka veiðigjaldsins, t.d. á árunum 2012 og 2013, varð til þess að mörgum býsna góðum og brýnum verkefnum var hrint af stað. Ég nefni Norðfjarðargöng, byggingu fangelsis, úrbætur í Landeyjahöfn, undirbúning að endurnýjun Herjólfs og fleiri mætti nefna. Það er ágætt að minna vini okkar á það sem hafa haft mikla samúð með útgerðinni og haldið að það væri henni ofviða að koma með sitt í púkkið til að byggja upp Ísland eftir ósköpin sem hér á dundu árið 2008.

Frú forseti, ég læt þetta nægja.