143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Peningarnir koma úr ríkissjóði og aðgerðirnar í heild eru fjármagnaðar að öllu leyti með peningum úr ríkissjóði eða skatttekjum, töpuðum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Er það það sem var lofað? Nei, það er ekki það sem var lofað. Því var lofað að peningar kæmu utan frá í þessa aðgerð. (Forsrh.: Þeir gera það.)

Hæstv. forsætisráðherra segir að með þessu sé allur forsendubresturinn vegna verðbólguskotsins leiðréttur. Samt er skilgreining á þessum forsendubresti horfin út úr frumvarpinu, hún er ekki til. Það er ekki verið að leiðrétta einhvern tiltekinn forsendubrest, ekki einu sinni látið líta svo út.

Í 7. gr., um útreikning á leiðréttingu einstaklings, stendur:

„Útreikningur á leiðréttingu hvers láns […] miðast við mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta.“

Hvað eru leiðréttar verðbætur? Það er nokkuð sem fjármálaráðherra á, samkvæmt 17. gr., að finna út úr með reglugerð. Það er eins fjarri öllu lagi að hæstv. forsætisráðherra geti staðið í ræðustólnum, sperrt sig og sagt: Það er staðið við (Forseti hringir.) kosningaloforðið um að leiðrétta allan verðbólguforsendubrest (Forseti hringir.) um 100% vegna þess að sú skilgreining (Forseti hringir.) er horfin út úr frumvarpinu. (Gripið fram í.)

Mér finnst að hæstv. forsætisráðherra eigi ekki að vera svona hógvær, af hverju eru það ekki bara 300%?