144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Hvaða verkefni skipta meginmáli fyrir land og þjóð í náinni framtíð?

Í fyrsta lagi er afnám hafta í íslensku efnahagslífi eitt mikilvægasta verkefni og lykilatriði um mótun efnahagsstefnu næstu ára. Í því verkefni verður að leita heildstæðra lausna sem taka á öllum þáttum fjármagnshaftanna, þar með talið uppgjöri föllnu bankanna. En mestu máli skiptir í því verkefni að hagsmunir þjóðarbúsins verði alltaf í forgrunni, hagsmunir fólksins í landinu.

Í öðru lagi verður áhersla næstu ára áfram að vera á lækkun skulda ríkissjóðs, fram hjá því getur enginn stjórnmálaflokkur litið. Og til þess að svo megi verða kann sala á eignum ríkisins, eins og hlutur þess í bönkunum, að verða nauðsynleg. Sömuleiðis er ljóst að ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs er brýnt að skoða og leita farsælla úrlausna til framtíðar. Má þar nefna skuldbindingar vegna lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna og ríkisábyrgðir gagnvart Íbúðalánasjóði.

Í þriðja lagi, góðir landsmenn, verðum við að stuðla að góðri hagstjórn, styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Og samhliða því sem er ekki síður mikilvægt er að við verðum að styrkja virkt innra eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eins og eigna og réttinda. Þetta mun skila aðhaldi og aga í allri fjárlagagerð, skilvirkri eftirfylgni og betri yfirsýn yfir öll opinber fjármál. Þess vegna er brýnt að frumvarp fjármálaráðherra um opinber fjármál nái fram að ganga á þessu þingi.

Í fjórða lagi eru það einföld sannindi að sköpun nýrra verðmæta, úrvinnsla nýrra hugmynda og öflun nýrra tækifæra verður til hjá einstaklingunum sjálfum fái þeir til þess svigrúm án opinberra afskipta. Því tengt tel ég nauðsynlegt að skoða regluverk opinberra eftirlitsstofnana.

Hvers vegna?

Vegna þess að beinn kostnaður fyrirtækja vegna opinbers eftirlits hleypur á milljörðum og það er skoðunarinnar virði að fara yfir regluverk sem kallar á slíkan kostnað. Okkar þingmanna bíður því enn það verkefni að búa til stöðugt, réttlátt rekstrar- og skattumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á öllum sviðum. Það er nauðsynlegt og mikilvægt að hér á landi verði við lýði sanngjarnar leikreglur til langrar framtíðar því að öllum ætti að vera ljóst að öflugt atvinnulíf er forsenda alls í þessu samfélagi, forsenda velferðar og menntunar landsmanna, forsenda öryggis og löggæslu, forsenda heilbrigðis og lýðheilsu.

Í fimmta lagi þurfa mörg fyrirtæki í dag, stór og smá, að standa í samkeppni við fyrirtæki sem njóta þeirrar vildarstöðu að vera í eigu fjármálafyrirtækja eða í skjóli þeirra. Það skekkir samkeppnisstöðu, fyrirtæki fara halloka og samfélagið verður af þeim kröftum og mannauði sem í þessum fyrirtækjum býr. Þessu þarf að breyta, slíkar breytingar mundu stuðla að eðlilegri hreinsun á markaði, aukinni hagkvæmni og eðlilegri samkeppni.

Í sjötta lagi, góðir landsmenn, vitum við að hagur heimila byggir á atvinnu og öryggi. Hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lán og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Að undanförnu hefur landsframleiðsla aukist, atvinnuleysi minnkað, störfum fjölgað og dregið úr verðbólgu. Þessir þættir ættu að skila sér í bættum hag einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja.

Lífskjörin í landinu ákvarðast af framleiðni vinnuafls og utanríkisviðskiptum en bætt ytri skilyrði fyrirtækja, minni hömlur á innflutningi og útflutningi gætu enn frekar bætt lífskjör almennings í þessu landi. Það væri vert að skoða.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í landinu okkar bíða fjölmörg tækifæri til verðmætasköpunar og betri lífskjara. Höfum kjark og áræði til að nýta þau til hagsældar fyrir land og þjóð.