144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við Píratar skilgreinum okkur hvorki til hægri né vinstri. Ástæðan er ekki sú að það séu þýðingarlaus hugtök eins og margir vilja meina heldur bara vegna þess að málin eru yfirleitt miklu flóknari en svo að hægt sé að setja þau einfaldlega í þessi box. Þetta er ein vídd af mörgum þegar kemur að því að ræða hluti eins og fjármál ríkisins eða efnahagsmál almennt. Þó verður að viðurkennast að það er þessi á sem helst virðist koma til tals, ekki kannski með nafni, en fólk talar ýmist á hægri vængnum eða á vinstri vængnum. Það er yfirleitt, ég held svei mér þá alltaf, það sem fólk á við þegar það talar um hugmyndafræðilegan ágreining, hugmyndafræðilegan ágreining sem er sjálfsagður og réttmætur og oft miklu málefnalegri en margir vilja halda.

Þetta þýðir að við Píratar getum ekki og munum ekki tala sem ein heild í þessu máli eða þegar kemur að efnahagsmálum almennt vegna þess að við erum ekki þannig flokkur. Við teljum þar að auki að það sé mikilvægt, ef fram á að fara heilsteypt og heiðarleg umræða um fjármál, hvort sem hún er um fjármál ríkisins eða efnahagsmál almennt, að fólk tali tæpitungulaust. Það þarf að viðurkenna að það skilji ekki allt sem liggur að baki hverjum einasta þætti efnahagsins enda um stórt og flókið fyrirbæri að ræða. Það er því mikilvægt að fólk bindi sig ekki fyrir fram við einhver ákveðin box eða við fyrir fram ákveðnar hugmyndir.

Ég get ekki annað en tekið eftir því að núna þegar þær aðstæður virðast vera komnar upp að ríkið geti komið út á sléttu, eða svo gott sem, þá var það í sjálfu sér alveg fyrirséð, rétt eins og hrunið var fyrirséð. Margir hafa ítrekað sagt, hér í pontu og víðar, að enginn hafi getað séð hrunið fyrir. Það er bara rangt. Það voru margir sem sáu hrunið fyrir, þar á meðal sá sem hér stendur. Í þokkabót var það augljóst. Það var augljóst vegna þess að það var ekkert eðlilegt ástand hér í gangi. Ein ríkasta þjóð í heimi og maður þekkti ekki nokkurn einasta mann sem ekki var skuldugur upp fyrir haus og þó þekkti maður fólk í öllum stéttum.

Þegar svo er komið þarf maður að spyrja: Hvað er að? Stemmir það að efnahagurinn sé á þeim stað sem hann er? Árið 2006 og snemma árs 2007 var svarið klárt og skýrt: Nei.

Ég óttast að við stígum núna sömu skrefin og við gerðum fyrir rúmum áratug og gleymum því að hrun gerast. Þau eru á ákveðinn hátt óhjákvæmileg. Fullkomið kerfi krefst fullkominnar þekkingar og fullkomin þekking er ekki í nánd.

Mig langar aðeins að tala efnislega um fjárlagafrumvarpið sjálft en síðan langar mig aðeins að tala um hina hliðina á efnahagsmálum sem við ræðum ekki nóg hér í þinginu og er ekki nógu mikið rædd meðal almennings. Það er efnahagsfyrirbærið í stóra samhenginu, bankakerfið, eðli peninga, hvernig þeir eru framleiddir, hvernig þeim er komið í umferð, hvaða áhrif aðgerðir hafa o.s.frv. Ég hef ekki orðið var við þessa umræðu nema frá einum sérlega hv. þingmanni, 2. þm. Reykv. n., Frosta Sigurjónssyni. Þótt hann tali um það þá er ekki þar með sagt að ég sé endilega sammála hv. þingmanni, svo að það sé alveg á hreinu.

Það sem stingur mig mest í augu hvað þetta fjárlagafrumvarp varðar er það sama og hjá mörgum öðrum, það er hinn svokallaði matarskattur eða virðisaukaskattur á mat sem, eins og ég sagði hér áðan, mér finnst óverjandi. Mér finnst óverjandi að skattleggja mat. Ég set samasem-merki á milli þess og að skattleggja líf. Fyrirgefðu vinur, þú færð ekki að lifa vegna þess að þú borgar ekki skattinn. Mér finnst þetta mjög sambærilegt af þeirri einföldu ástæðu að við erum ekki lengur að tína epli af trjánum, alla vega ekki hér á Íslandi. Það er mín afstaða og ég get ekkert talað fyrir aðra pírata. Ég veit að margir eru ósammála mér. Ég veit að það mundi flækja skattkerfið aðeins að hafa þrjú þrep, það er að segja 0%, 12% og 24%, ég geri mér grein fyrir því. En það að einfalda skattkerfið getur flækt líf fólks. Það getur verið flókið að hafa efni á mat. Það er fullt af fólki sem glímir við þær aðstæður, sérstaklega öryrkjar og aðrir í sambærilegum aðstæðum.

Svo er annað sem ég verð að nefna, meira í hæðni verð ég að segja, og það er áfengisgjaldið sem mun hækka aðeins. Nú vil ég taka fram að ég er ekkert sérstaklega á móti því að hækka áfengisgjaldið en mér finnst að einhvern tímann verði einhver að nefna eitt atriði hér í pontu, ef fólk vill ekki gera það að einhverju tabúi. Hugmyndin að baki gjaldinu er neyslustýring, það er að fólk noti minna af áfengi. Það er auðvitað gott og blessað því áfengi er jú dóp. Það er ekkert minna dóp en önnur ólögleg vímuefni, það hefur sömu áhrif. Það veldur andlegum skaða, líkamlegum skaða, fíkn, geðveiki og dauða. Það er ekkert sem nokkurt dóp gerir manni sem áfengi gerir manni ekki líka. Áfengi er dóp. Eini munurinn er sá að við höfum verið að nota það í mörg þúsund ár og finnst það þess vegna af einhverjum ástæðum í lagi.

Ég vildi bara nefna að ÁTVR skilar hagnaði. Ríkið hækkar verð á dópinu. Ríkið er dópsali. Mér fannst bara einhver þurfa að segja það í pontu [Hlátur í þingsal.] á hinu háa Alþingi einhvern tímann, ríkið er dópsali. (Gripið fram í.) Að því sögðu ætla ég ekki að fjalla meira um áfengisgjaldið.

Mig langar líka að nefna þjóðkirkjuna sem ég ræddi áðan í andsvari við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hv. þingmaður nefndi réttilega að þjóðkirkjan er varin með stjórnarskrá, með 62. gr. stjórnarskrárinnar. Það er hægt að breyta þessu með lögum. Þá þarf að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sem er sjálfsagt, býst ég við. En til þess að fólk geti tekið þá ákvörðun þarf að ræða hana fyrir fram. Þess vegna finnst mér alveg við hæfi að ræða það við afgreiðslu fjárlaga að ríkið eyðir peningum, skattfé, í trúarbrögð. Ég get hreinlega get ekki ímyndað mér hvaða hluti af mannlegu lífi á minna heima hjá ríkinu en persónuleg lífsviðhorf og viðhorf til guðs — til guðs, virðulegi forseti.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort við ættum að ræða trúmál á hinu háa Alþingi, hvort maður ætti að fara í andsvar við hv. þm. Árna Pál Árnason og spyrja hann út í guðstrú hans, hvort hann biðji, hvort hann hafi tekið við Jesú Kristi sem sínum persónulega frelsara. Væri það umræða sem væri við hæfi hér á hinu háa Alþingi? Nei, virðulegi forseti, það væri fjandakornið ekkert við hæfi, afsakið orðbragðið. Það er ekkert við hæfi að trúmál tilheyri ríkinu, það er út í hött. Stundum veit ég ekki alveg hvernig best er að orða það, ég kann ekki að orða það almennilega á íslensku þannig að ég verð að sletta. Mér finnst bestu rökin vera: Come on. Í alvöru talað, ríkiskirkja er ekki í lagi. Jæja, nú fer ég að verða pirraður á því að tala of mikið um þetta, þannig að ég ætla að láta það í friði.

Mig langar aðeins að fjalla um skuldaniðurfellinguna. Þá förum við aftur að þessu vinstri/hægri fyrirbæri. Skuldaniðurfellingin er eitt af því furðulegra sem hægt er að nefna í því samhengi. Þá er verið að nota skattfé sem er jú vissulega í prinsippinu tekið af bönkunum, vonandi. Það er svo afhent til að lækka skuldir hjá fólki sem þó hefur einhverjar eignir til að tapa. En það er fullt af fólki sem hefur engu að tapa. Það er fullt af fólki sem leigir, það er fullt af fólki með námslán og þetta fólk spyr mig stundum: Hvers vegna er verið að láta fólk eins og þig, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, hafa peninga? Vegna þess að þetta er ekki sanngjarnt.

Það getur ekki verið vinsælt að segja við fólk að það eigi ekki að fá peninga frá ríkinu. Mér finnst skömminni verra að segja það við öryrkja eða aldraða eða námsmenn en við einhvern sem er í minni stöðu sem þó á eitthvað. Ég segi það sama og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þegar hann sagði að hann sæi eftir því, eins og ég, að hafa ekki talað meira gegn þessu frá upphafi, sérstaklega í kosningabaráttunni 2013. Þetta er slæm hugmynd. Bankaskatturinn er góð hugmynd en við ættum að nota hann til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er skuldavandi Íslands, það er skuldavandi okkar allra, vandi sem nýfætt barn á líka við að etja.

Þá langar mig aðeins að beygja yfir í eitthvað jákvæðara. Eitt af undantekningarmálunum þegar kemur að lýðræðisvæðingu, sem bæði kom til tals þegar frumvarp kom fram um nýja stjórnarskrá og einnig í almennu tali um lýðræðisvæðingu og þjóðaratkvæðagreiðslu, er fjárlög. Fjárlög eru undanskilin ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem mér finnst eðlilegt vegna þess að fjárlög eru þess eðlis. Það er ekki þar með sagt að við getum ekki lýðræðisvætt fjárlögin einhvern veginn, á einhvern hátt kannað með formlegum og öruggum og almennilegum hætti hvernig þjóðin vill forgangsraða einhverjum ákveðnum hluta fjárlaga. Ég varpa þessu fram sem hugmynd vegna þess að þetta yrði alltaf mjög flókið og alltaf mjög erfitt og þyrfti að skoða alveg sjálfstætt, held ég.

Ég vildi að minnsta kosti varpa því fram að við ættum alltaf að hafa í huga þá forgangsröðun sem þjóðin vill. Nú þori ég að fullyrða að öll þjóðin þurfi að borða. Þess vegna finnst mér alveg óhætt að segja að þessi matarskattur sé þvert á við þá forgangsröðun sem fólk þurfi og vilji. Ég tel óþarft að rannsaka það sérstaklega hvort fólk þurfi og vilji borða mat.

Nú hefur verið komið á fót fjármálastöðugleikaráði sem er afar jákvætt í prinsippinu, en þegar ég las frétt um að nú væri það að koma saman gat ég ekki annað en velt fyrir mér fortíðinni. Ég man nefnilega mjög vel eftir því, þrátt fyrir meintan ungan aldur, að hér á þingi voru menn húðskammaðir fyrir að tala niður efnahaginn.

Að tala niður efnahaginn er svolítið áhugavert hugtak, að tala niður efnahaginn er að vara við því að eitthvað sé að. Ég óttast að þær stofnanir sem munu sjá um það í framtíðinni að tryggja fjármálastöðugleika lendi í sama vanda, að um leið og þær fari að benda á að eitthvað sé að, að eitthvað sé ekki í lagi, að eitthvað sé að sem þurfi að díla við, verði þær bara skammaðar. Ýmist skammaðar, lagðar niður eða fé tekið af þeim, hvernig sem það yrði. Efnahagurinn er nefnilega, eins og spakur maður sagði, að hluta til vísindi og að hluta til vúdú. Það þýðir að þegar við tölum um efnahaginn getum við haft áhrif á hann. Það minnir á skammtafræði, sem er reyndar annað málefni ef út í það er farið. Við getum ekki flúið þann vanda. Við verðum að geta talað tæpitungulaust um það hvernig efnahagurinn er, hvernig hann virkar. Um leið og við hættum að geta það þá hættum við að geta talað um þetta yfir höfuð.

Þá kem ég að því síðasta sem mig langar að tala um og það er það sem við erum ekki að tala um hér við afgreiðslu fjárlaga. Það er bankakerfið, peningakerfið og efnahagsmálin í miklu víðara samhengi en kemur fram á fjárlögum. Nú erum við alltaf að tala um fjárlögin í samhengi við skuldastöðu ríkissjóðs o.s.frv. Skuldastaða ríkissjóðs er eins og hún er af ákveðinni ástæðu og ástæðan er hrunið 2008. Hrunið er afleiðing kerfis og það er túlkunaratriði hvort það kerfi virkaði eða virkaði ekki. Ég hef heyrt að hrunið 2008 sé einkenni kerfis sem virkar ekki en kannski er það einkenni kerfis sem virkar, á sama hátt og maður getur keypt sér sportbíl ef maður á kreditkort. Það er ekkert mál að kaupa sportbíl. En þegar kemur að því að borga fyrir hann gæti komið upp vandamál. Það þýðir ekki að kreditkortið virki ekki, það þýðir ekki að maður hafi ekki getað keypt sér sportbílinn, það þýðir bara að maður hefði átt að hugsa aðeins fyrir fram út í það sem maður var að gera. Og ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að gera það núna.

Nú er aftur komin upp þessi umræða — nú er tíminn alveg búinn — um sölu bankanna. Það er akkúrat þá sem ég tel ógöngur Íslands hafa — ja, sagan byrjar kannski ekki þar en þegar bankarnir voru seldir á sínum tíma var það umdeilt og hefði mátt ræða það betur, ákvarðanir hefðu mátt vera betur ígrundaðar. Að mínu mati hefði átt að selja þá í dreifða eignaraðild á sínum tíma. En ég hef alltaf sagt að ef það hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma hefði umræðan orðið öðruvísi. Ég vil meina að við stjórnmálamenn eigum ekki að taka allar ákvarðanir. Það er mjög róttæk hugmynd, ég veit það, alveg snældugalin, en það finnst mér bara samt.

Nú ætlum við að selja bankana og þá er mikilvægt að við áttum okkur á því að þegar bankakerfið hrynur þá hrynur efnahagurinn með því. Þá mun ríkið þurfa að bregðast við, þá verður ríkið skuldsett. Það er ekkert ef eða kannski, það er ekki val, það er þannig, það getur ekki verið öðruvísi. Og þá þurfum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hversu stórir bankarnir megi vera, sérstaklega ef þeir eru í einkaeigu. Ef banki er of stór til að falla þá er hann of stór til að vera í einkaeigu. Það eru svona spurningar sem við verðum að spyrja okkur áður en við förum aftur að ganga þá braut sem við byrjuðum að ganga í upphafi þessarar aldar.