144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er farið að minna mig á viðtalið hjá Gísla Marteini. Fyrst hæstv. forsætisráðherra vill aðeins ræða um dómsmál skulum við ræða um dómsmál, hæstv. forsætisráðherra. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir hefur það vakið athygli að framlög sem snúa að átaki vegna kynferðisbrota gegn börnum er ekki lengur að finna fyrr en árið 2015. Þetta hefur auðvitað komið öllum mjög í opna skjöldu vegna þess að eftir mikilvæga umfjöllun í Kastljósi jókst mjög álag vegna þessara mála í kerfinu og fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti á stofn sérstakt átak með 80 millj. kr. í fjárveitingum til margvíslegra stofnana. Það er ástæða til að hrósa Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra fyrir að hún heldur inni þeim 20 millj. kr. sem eru hjá hennar stofnun. Dómsmálamegin eru hins vegar teknar út 30 milljónir hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ef ég veit rétt, 10 milljónir hjá ríkissaksóknara, 10 milljónir á Suðurnesjunum, 3 milljónir hjá ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnun.

Ég vil bara trúa því, hæstv. forsætisráðherra, að þetta séu einhver mistök, hér hafi orðið einhver handvömm. Þetta á ekki að vera flokkspólitískt mál eða mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér er þverpólitísk samstaða um að vinna að þessum mikilvægu málum. Ég bið bara um yfirlýsingu forsætisráðherra um það að framlögum vegna þessa málaflokks, kynferðisbrota gegn börnum, verði haldið áfram á næsta ári og hafi orðið einhver mistök í fjárlagagerðinni verði það leiðrétt hér í þinginu.

Að öðru leyti vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, fyrirgefðu, dómsmálaráðherra er það víst núna, um niðurskurð í löggæslunni frá því sem var á þessu ári. Ég sé ekki betur en að fjárframlög að raunvirði til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lækki um 57 milljónir, um nærfellt 20 milljónir á Suðurnesjunum, u.þ.b. 20 milljónir hjá ríkislögreglustjóra. Hverju sætir þetta núna þegar hagvöxtur er að aukast og peningar í ríkissjóði? Af hverju er þá verið að skerða framlög frá því sem þau voru núna í ár? Ætlar hann ekki að ráða bót á þessu?

Síðan veit ég satt að segja ekki, af því að þetta er orðið svo ruglingslegt vegna vandræðanna í kringum hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hvað það er sem heyrir undir hana og hvað það er sem heyrir undir hæstv. forsætisráðherra. Landhelgisgæslan er skorin niður um 93 millj. kr. Ég hef tekið eftir að forsætisráðherra hefur lagt mikla áherslu á almannavarnaviðbúnað og annan slíkan viðbúnað. Það er full ástæða til þess þessa dagana og alla daga á Íslandi og ég spyr þess vegna líka og treysti því að forsætisráðherra hafi þá bara skoðun á því ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra hefur ekki Landhelgisgæsluna undir sér: Er ekki mikilvægt núna, þegar fé hefur aukist til ráðstöfunar, að við höldum að minnsta kosti óbreyttum fjármunum til grundvallaröryggisstofnunar í okkar samfélagi eins og Landhelgisgæslan er og reynum heldur (Forseti hringir.) að auka í en hitt?