144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þó að ég og hæstv. ráðherra séum báðir frjálslega vaxnir gefur það hvorugum okkar leyfi til þess að fara frjálslega með staðreyndir. Mér finnst sem hæstv. ráðherra hafi í svörum sínum við gagnrýni þingmanna gagnvart uppbyggingu á ferðamannastöðum farið ákaflega frjálslega með staðreyndir. Hann hefur í fyrsta lagi gagnrýnt fyrri ríkisstjórn fyrir það að hafa ekkert gert í þeim efnum. Þá er rétt að rifja það upp að hún lagði 750 milljónir á síðasta kjörtímabili, þrátt fyrir kreppu, einmitt til þess málaflokks. Af hverju? Vegna þess að hún var sér vel meðvituð um að það er undirstaða sjálfbærrar sóknar á sviði ferðaþjónustu. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Í annan stað vísar hæstv. ráðherra að mér finnst næsta frjálslega til þess að það sé að koma frumvarp um gjaldtöku á ferðamannastöðum sem eigi að setja undir þennan leka. Þetta er nákvæmlega sama og hæstv. ríkisstjórn sagði fyrir heilu ári. Fyrir réttu ári, á þessum tíma þegar við ræddum fjárlögin þá sagði ríkisstjórnin þetta. Hvað gerðist á þeim vetri? Ekki neitt. Af hverju? Af því það var ágreiningur í stjórnarliðinu, einkum innan Sjálfstæðisflokksins, ágreiningur við ferðaþjónustuna. Hann er ekki horfinn.

Hér í dag sagði hæstv. ferðamálaráðherra að von væri á þessu frumvarpi eftir nokkra mánuði. Síðar sagði hún: Ja, í þessum mánuði. Látum það nú vera hvenær það kemur.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann sammála þeirri stefnu sem birtist þar og eins og hefur komið stundum fram af hálfu þess hæstv. ráðherra, um að jafnvel Íslendingar eigi að greiða fyrir það að fara og skoða sínar eigin náttúruperlur?

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í mál sem tengist beint fjárlögum, það er endurskipulagning ráðuneytis hans. Hæstv. ráðherra er með allra vöskustu mönnum og ég veit að hann kinokar sér ekki við það að fara með mörg ráðuneyti. Samt sem áður hefur þessi ríkisstjórn verið gagnrýnd harkalega fyrir það að gefa umhverfismálum lítið vægi og jafnvel gera sig seka um hagsmunaárekstur með því að sami stjórnmálamaður gegni embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sinni umhverfismálum líka. Hæstv. forsætisráðherra og reyndar hæstv. ráðherra sem hér er til svara hafa margsinnis sagt að í gangi sé einhvers konar skoðun á málaflokkum sem eigi að leiða til endurskipulagningar. Þegar því er lokið eigi að skipta ráðuneytinu aftur upp og það verði sjálfstætt með sjálfstæðan ráðherra. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær verður það?