144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Síst ætlaði ég að særa tilfinningar hæstv. ráðherra með upphafsorðum mínum áðan en ef það er einhver þingmaður í þessum sölum sem getur leyft sér að segja svona þá er það sá þingmaður sem hér stendur. Ég lofa að gera það ekki aftur gagnvart þessum viðkvæma hæstv. ráðherra vegna þess að ég vil heldur hafa hann í góðu skapi en slæmu.

Hins vegar er ég algerlega til í það hvenær sem hæstv. ráðherra vill að taka umræðu um hagsmunaárekstra. Þessi afstaða mín hefur legið lengi fyrir. Hún hefur reyndar legið fyrir allar götur síðan 1994 þegar einmitt kom upp sú staða að hugsanlegt væri að sami maður færi með umhverfis- og orkumál, þ.e. sá sem hér stendur. Ég taldi að það væri bláber hagsmunaárekstur og hafnaði því. Með sama hætti tel ég að það geti komið upp sú staða, sama hversu góður og vandaður ráðherrann er sem gegnir embættunum, að vegna þess hversu eðli málaflokkanna getur verið ólíkt — umhverfismála til dæmis og landbúnaðar, umhverfis og sjávarútvegs — geti það skapað hagsmunaárekstur sem væri óeðlilegur og óþægilegur fyrir stjórnsýsluna.

Hinu vil ég svo vekja athygli á að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að athugun og greiningu á málaflokkum ráðuneyta og umhverfisráðuneytisins sérstaklega, sem búin er að standa yfir núna í hartnær 15 mánuði, sé ekki enn þá lokið. Ég vona, herra forseti, að ég særi ekki sálarlíf nokkurs viðkvæms meðlims í ríkisstjórninni þótt ég rifji það upp að einu sinni var hér ráðherra, reyndar í sama flokki og hæstv. ráðherra sem hér er til svara, sem sagðist vinna með hraða snigilsins. Ég fæ ekki betur séð en það megi heimfæra upp á alla ríkisstjórnina ef það tekur 15 mánuði að skoða það sem hæstv. ráðherra greindi hér snyrtilega á 15 sekúndum sem fjóra meginflokka. Ef það tekur 15 mánuði að skoða það án þess að komast til niðurstöðu, herra trúr, hvernig verða þá hin verkin?