144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skuldaniðurfærsla fyrir leigjendur og búseturéttarhafa.

[15:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra skilji sjónarmið sveitarfélaga. Það er hamlandi fyrir sveitarfélögin að byggja upp leiguhúsnæði á meðan ríkisvaldið tekur ekki þátt í húsnæðisstuðningi við þau heimili með sambærilegum hætti og í vaxtabótakerfinu. Það hindrar sveitarfélögin í uppbyggingu leiguhúsnæðis á meðan það hefur bein áhrif á aukinn kostnað sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta. Nýtt húsnæðisbótakerfi er afgerandi hvað þetta varðar og til þess að auka framboð á húsnæði.

Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra vilji dvelja við síðustu ríkisstjórn, en ég er að beina sjónum mínum að fjárlagafrumvarpinu sem hann lagði fram núna sem sitjandi í ríkisstjórn. Við hækkuðum húsaleigubæturnar á síðasta kjörtímabili. Það er ekki verið að hækka þær núna. Það eru engin áform um slíka hækkun eftir því sem ég best fæ séð til að mæta (Forseti hringir.) þeim hópum sem ekki fá leiðréttingu. Er ráðherra að hugleiða frekari fjárveitingar inn í húsaleigubótakerfið (Forseti hringir.) á komandi fjárlagaári?