144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:34]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Samhljóða frumvarp var lagt fram í lok 143. löggjafarþings til almennrar kynningar. Er því um endurflutt þingmál að ræða en þó skal hér tekið fram að það var ekki ætlunin að fá það samþykkt á síðasta þingi heldur var það, eins og áður sagði, lagt fram til kynningar.

Frumvarp þetta má rekja til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að til að stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst verði ráðist í undirbúningsvinnu vegna samgöngumála, slysavarna og björgunarstarfa, umhverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag. Tilgangur ríkisolíufélags verði að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu og leggja grunn að því að hugsanlegur ávinningur af olíuvinnslu nýtist samfélaginu öllu.

Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að stofna opinbert hlutafélag í eigu ríkisins um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins yrði tilgangur slíks opinbers hlutafélags að gæta íslenskra hagsmuna með því að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu sem íslenska ríkið kann að taka þátt í og leggja þannig grunn að því að hugsanlegur ávinningur af olíuvinnslu nýtist samfélaginu öllu. Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að hlutafélaginu er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki, enda er sá rekstur annars eðlis.

Í því samhengi má benda á hvernig þessum málum er komið fyrir í Noregi. Þar annast ríkisolíufélagið Petoro umsjón með hlut norska ríkisins í sérleyfum á norska landgrunninu sem og hlut Norðmanna í þeim þremur sérleyfum sem búið er að veita á Drekasvæðinu innan íslenskrar lögsögu. Petoro er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki og getur ekki heldur sinnt stjórnsýsluhlutverki. Petoro tekur því ekki beinan þátt í vinnslu kolvetnis, ólíkt Statoil, heldur er einungis um fyrirtæki að ræða sem gætir ríkishagsmuna.

Það fyrirkomulag sem í frumvarpinu er lagt til tekur mið af því fyrirkomulagi og regluverki sem gildir um Petoro, þ.e. þegar talað er um ríkisolíufélag í þessu samhengi er ekki verið að tala um vinnslufyrirtæki.

Það er einnig rétt að ítreka að verði frumvarpið að lögum er eingöngu um heimildarlög að ræða. Lögin veita ráðherra heimild til að stofna opinbert hlutafélag í áðurnefndum tilgangi þegar og ef ástæða er talin til að taka slíka ákvörðun. Ekki er því um að ræða að félagið verði stofnað þegar við setningu laganna. Þvert á móti er ekki ráðgert að til slíkrar ákvörðunar geti komið fyrr en eftir einhver ár. Nánar tiltekið er fyrirséð að eftirfarandi þrjár sviðsmyndir geti leitt til þess að ákvörðun verði tekin um að virkja ákvæði laganna og stofna opinbert hlutafélag um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

Í fyrsta lagi þegar og ef Noregur opnar Jan Mayen-svæðið sín megin hryggjar. Ef að því kemur að norsk stjórnvöld hefja útboð og rannsóknir á vinnsluleyfi Noregsmegin á Jan Mayen-svæðinu á Ísland rétt á að taka þátt í þeim leyfum með sama hætti, eða 25%, og norsk stjórnvöld hafa tekið þátt í þeim þremur sérleyfum sem íslensk stjórnvöld hafa veitt á Drekasvæðinu. Er það á grundvelli samnings milli Íslands og Noregs frá árinu 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Ef á reynir mundi það ríkishlutafélag sem frumvarp þetta kveður á um fara með eignarrétt íslenska ríkisins á hlut í þeim leyfum. Æskilegt er því að hafinn verði undirbúningur að því hvernig staðið yrði að stofnun slíks hlutafélags svo íslensk stjórnvöld verði tilbúin að takast á við hugsanlegar leyfisveitingar Norðmanna til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Jan Mayen-svæðinu.

Í því samhengi er rétt að benda á að íslenska ríkið þarf ekki að taka ákvörðun um þátttöku í leyfum á norska hlutanum fyrr en eftir að olía hefur fundist og því líklegt að nokkur ár muni líða þar til reynir á félagið í því hlutverki.

Í öðru lagi ef einhver þeirra leyfishafa sem standa að þeim þremur leyfum sem veitt hafa verið til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu ákveði að draga sig út úr leyfunum. Við þær aðstæður hafa stjórnvöld ákveðið forgangsrétt á að ganga inn í viðkomandi leyfi og til að virkja þann rétt mundi þurfa að stofna opinbert hlutafélag sem færi með viðkomandi hlut í leyfinu.

Í þriðja lagi gæti komið til stofnunar hlutafélagsins ef í kjölfar nýs útboðs til leitar og vinnslu á leyfum yrði tekin sú ákvörðun að íslenska ríkið tæki þátt í mögulegum nýjum sérleyfum. Hlutafélagið færi þá með hlut ríkisins í þeim leyfum. Í því samhengi má benda á að fram til þessa hefur stefna stjórnvalda hins vegar verið sú að taka ekki með beinum hætti þátt í þeim útboðum sem hafa farið fram innan íslenska landgrunnsins. Einnig má benda á að að svo stöddu eru ekki uppi tímasett áform um þriðja útboð vegna rannsóknar og vinnslu kolvetnis.

Eins og fram kemur í greinargerð tekur frumvarpið mið af sérlögum um stofnun hlutafélaga í eigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að hlutafélaginu verði heimilt að starfa á landgrunni Íslands og á þeim svæðum utan landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunns Íslands þar sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild í leyfum samkvæmt alþjóðasamningum eða öðrum heimildum. Lagt er til að sá ráðherra sem fer með orkumál annist undirbúning að stofnun hlutafélagsins en að sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fari með eignarhlut ríkisins í félaginu.

Í frumvarpinu er nánar kveðið á um tilgang og rekstur hlutafélagsins, skipun stjórnar og skyldu stjórnar. Með vísan til þess að líklegt er að nokkur ár munu líða þar til reynir á hlutafélagið í því starfi að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu sem íslenska ríkið kann að taka þátt í er með frumvarpinu lagt til að lögin öðlist gildi við birtingu en komi til framkvæmda þegar ákvörðun um stofnun hlutafélagsins liggur fyrir. Þar sem um heimildarlög er að ræða kann að líða einhver tími þar til félagið verði stofnað og ræðst sá tími m.a. af þróun mála á norska hluta Drekasvæðisins. Með vísan til þessa gefst nægur tími til að undirbúa stofnun félagsins. Að sama skapi mun ekki koma til greiðslu stofnfjár upp á 20 millj. kr. fyrr en ákvörðun ríkisstjórnar liggur fyrir um að stofna hlutafélagið á grundvelli laganna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málið gangi til hv. atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr.