144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp. Ég minnist þess að ég spurði hana skömmu eftir að hún tók við embætti hvort hún hygðist ekki gera reka að því að koma í kring þeim heimildum sem þarf til að ráðast í stofnun þess. Það hefur hún nú gert og mér finnst það vera framfaraspor.

Ég styð þá viðleitni ríkisstjórnarinnar að reyna að gera Íslendingum ávinning úr þeim hugsanlegu auðlindum sem kunna að liggja undir hafsbotni á Drekasvæðinu og raunar líka Noregsmegin. Á mínum tíma sem iðnaðarráðherra og í tíð síðustu ríkisstjórnar var ég allmjög á þeirri sveifinni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Hyggst ríkisstjórnin með einhverjum hætti reyna að beita sér fyrir því gagnvart Norðmönnum að þeir skilji á milli ákvarðana sinna um að fresta leit annars vegar við Lófóten og hins vegar við Jan Mayen? Þegar núverandi ríkisstjórn í Noregi var mynduð var uppi ágreiningur sem beindist sérstaklega að Lófóten, Jan Mayen var tekin með. En eins og hæstv. ráðherra veit, af viðræðum sínum við norsk olíuyfirvöld, þá voru menn alls ekki á eitt sáttir um það. Ég tel að Íslendingar hafi færi á því að beita diplómatískum fortölum í þessu skyni. Það mundi hjálpa okkur, a.m.k. þeim okkar sem viljum vinna þarna.

Í öðru lagi kom það mér nokkuð í opna skjöldu þegar hæstv. ráðherra dró upp þrjár sviðsmyndir fyrir mögulegum aðdraganda að stofnun félagsins og tvær af þeim lutu að þeim möguleika að Íslendingar tækju beinan þátt í starfsemi olíuleitar sem ríki á Drekasvæðinu. Mundi það undir einhverjum kringumstæðum vera æskilegt fyrir Ísland að taka þá áhættu sem ríki?