144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina. Þetta er, eins og komið hefur fram, mál sem snýr að því hvernig við varðveitum menningararfinn. Það er svo fjölbreytt efni sem Ríkisútvarpið varðveitir og framleiðir á hverjum degi að nauðsynlegt er að huga vel að þessu.

Hvað varðar fréttirnar get ég svo sem alveg tekið undir það að ég veit ekki hvort tæknilegar eða fjárhagslegar ástæður ráða því að þær eru aðgengilegar þennan ákveðna tíma. Ekki það að maður vilji leggja það á nokkurn mann að horfa á íslenskar fréttir tvisvar eða oftar jafnvel en þó er nauðsynlegt sögunnar vegna að við gætum þess að aðgengi sé sem lengst.

Ég vil líka fullyrða við hv. þingmann að það er ekkert samsæri á bak við það að þessar fréttir hafa horfið. (ÖS: Viðurkenndu það.) Sumir halda því fram að þessar fréttir komi verr út fyrir suma en aðra en ég held að það sé frekar tæknilegt mál sem skýri það.

Hvað varðar höfundaréttarvarið efni þá er það alveg rétt sem hér hefur verið bent á að væntanlega ætti það að vera auðveldara, þ.e. eldra efni sem ekki er varið með höfundaréttarlögum. Þó er rétt að hafa í huga að á teikniborðinu okkar í ráðuneytinu hvað varðar þessi efni er einmitt verið að vinna að frumvarpi um að lengja höfundaréttinn um nokkuð langan tíma, meðal annars vegna þess að listamennirnir lifa orðið miklu lengur en áður. Þeir eru farnir að lifa heilbrigðara lífi og er nauðsynlegt að tryggja að höfundarétturinn hverfi ekki meðan listamennirnir eru á lífi. Það er einn þátturinn sem rétt er að hafa í huga.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að hægt sé að ná góðri samstöðu um þetta mál til að lyfta því grettistaki sem þarf að lyfta. Það er ómögulegt að svona merkilegar menningarminjar eins og þarna er um að ræða, sem ná aftur til þess tíma sem hv. þingmaður nefndi, skemmist svo að við höfum ekki aðgang að þeim í framtíðinni. Það væri alveg hörmuleg niðurstaða.