144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrirspurnina því að það er alltaf mikilvægt að ræða þróun skóla- og menntamála. Ég hef áður komið inn á það úr þessum ræðustól að ég tel tímabært að taka umræðu um skilvirkni og verkaskiptingu ýmissa aðila sem vinna að fullorðinsfræðslu. Við þróun fullorðinsfræðslunnar síðustu árin hefur óhjákvæmilega orðið til skörun milli framhaldsskóla, sérskóla, símenntunarmiðstöðva og ýmissa verkefna tengdra starfsendurhæfingu og vinnumarkaðsúrræðum. Með öðrum orðum tel ég rétt að staldra við núna, skoða stöðuna og meta hvort breytinga sé þörf og þá hvernig breytinga.

Það hefur líka komið fram að ég haft nokkrar áhyggjur af stöðu minni framhaldsskóla. Ef möguleikar þeirra til að þjóna eldri nemendum eru skertir geta samhliða því skerst möguleikar skólanna til að bjóða upp á fjölbreytni í námi og til rekstrar. Ég er þess vegna tilbúin að halda áfram að skoða og fá skýrari mynd af því með hvaða hætti breytt framsetning fjárframlaga til framhaldsskólanna hefur áhrif á starfsemi þeirra og aðgang að námi. Ég er tilbúin að beita mér fyrir því í gegnum vinnuna í allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd. (Gripið fram í.)

Ég er tilbúin til þess að fá niðurstöðu um það sem er að gerast. Ef það er ástæða til að bregðast við, ef breytingarnar eru á einhvern hátt í aðra átt en lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu, er ég tilbúin að bregðast við því með það að markmiði að 25 ára og eldri eigi áfram kost á bóklegum námsleiðum — þær þurfa ekki endilega að vera í gegnum framhaldsskólann að mínu mati — og með það að markmiði að litlir (Forseti hringir.) framhaldsskólar séu áfram starfshæfir.