144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Offita barna og unglinga er vaxandi vandamál á Íslandi eins og í flestum öðrum vestrænum löndum. Offita á unglingsárum leiðir oftast til offitu á fullorðinsaldri og er ávísun á fjölmörg heilsufarsvandamál, bæði líkamleg og andleg. Meðferð offitu hjá börnum og unglingum er vandasöm og árangur lélegur. Því eru fyrirbyggjandi aðgerðir afar mikilvægar.

Það hefur mikið verið rætt og pælt um þessi mál og meðal annars er lyfjaþróun í fullum gangi en það er svo mikið einblínt á að lækna afleiðingarnar að það vill gleymast að vinna á orsökinni. Við vitum öll að bætt mataræði, fræðsla og aukin hreyfing eru einu forvarnirnar sem virka gegn þessari vá. Mikið forvarna- og fræðslustarf hefur farið af stað til að vinna á móti þessari þróun og er þar helst að nefna verkefni Lýðheilsustöðvar.

2012 vann Steinunn Anna Eiríksdóttir lokaverkefni við HÍ undir heitinu „Börn, offita og matarfíkn: forvarnir og úrræði á Íslandi“. Þar kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi hefur ekki setið auðum höndum þegar kemur að þróun forvarna gegn offitu hjá börnum. Forvarnaverkefni eru mörg og miða gjarnan að skólaumhverfinu því að þar er hægt að ná til allra barna landsins, hins vegar ekki eins ljóst hvort matarfíkn eða möguleikinn á henni sé inni í myndinni við mótun þessara forvarnaverkefna.“

Stórmarkaðir hérlendis hafa verið hvattir til þess að taka þátt í forvarnastarfinu með því að stilla ekki upp sælgæti við afgreiðslukassa og inngang. Sumir þeirra hafa tekið þetta til sín og er það vel. Því miður eru þó margar auglýsingar á sykurvörum, sem miða að börnum, í litríkum og oft villandi umbúðum og þegar við erum að hugsa um heilbrigði barna og forvarnir megum við ekki gleyma að sykurvörur, sælgæti, gos, sykrað morgunkorn o.s.frv., eru þar ekki undanskildar.