144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir fína ræðu. Í sjálfu sér hef ég ekkert út á hana að setja nema síður sé. Hann fór vel yfir málið og efnahagslegt samhengi lífeyrissjóðanna og mikilvægi þess, eins og hann orðaði það, að hafa augun á boltanum og markmiðin skýr sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt í því stærðarsamhengi sem lífeyrissjóðirnir eru.

Hann svaraði í raun því sem ég ætlaði að spyrja hann út í. Ég hafði hugsað mér að spyrja hann út í þá pressu sem er á lífeyrissjóðunum að ávaxta fé. Þetta rýmkar heimildir og gefur aukna möguleika í ljósi hafta. Hvað sér hann fyrir sér í því hvernig megi leysa þessa pressu? Svo varðandi þetta tiltekna mál, sér hann fyrir sér einhverjar frekari takmarkanir á því máli?