144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Barnaverndarmál eru sannarlega mikilvægur málaflokkur. Það skýtur svolítið skökku við að tveir framsóknarmenn séu hér að tala saman um barnaverndarmál þegar málefni Barnaverndarstofu hafa verið sett í uppnám með tilkynningu um að það eigi að sameina þá stofnun annarri og það er óljóst nákvæmlega hvað hún á að gera og hvar hún á að vera.

Síðan er verið að gera samning þvert á faglega ráðgjöf stofnunarinnar um rekstur heimilis í Skagafirði. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur líka miklar áhyggjur af þeim samningi og hefur gagnrýnt harðlega hvernig fjármunum er forgangsraðað í barnavernd.

Ég ákvað að gera þetta að umræðuefni hér. Varðandi Barnaverndarstofu held ég að það sé ástæða fyrir ráðherra að gera okkur betri grein fyrir hvað hún ætlast fyrir með sameiningu stofnana. Hér var samþykkt frumvarp síðasta vor þar sem var heimilað að ráða tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs. Þá stóð til að sameina Fjölmennningarsetur, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks og er vísað í stofnun sem á að koma á laggirnar 1. janúar 2015.

Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið en ég er með útprentað frumvarpið fyrir framan mig. Nú er búið að skipta út Jafnréttisstofu fyrir Barnaverndarstofu og ég lýsi yfir áhyggjum af því að félags- og húsnæðismálaráðherra fari af svo mikilli léttúð og ábyrgðarleysi með (Forseti hringir.) barnaverndarmál í landinu.