144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:33]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja máls á þessu. Það er ekki ofsögum sagt að ófremdarástand sé að skapast á sjúkrahúsum landsins og ekki síst á Landspítala vegna verkfalls lækna. Málið er grafalvarlegt og getur kostað samfélagið milljarða þegar upp er staðið ef verkfallið dregst á langinn, að ekki sé minnst á óþægindi sjúklinga.

Í raun er um uppsafnaðan vanda að ræða sem enginn einn ber ábyrgð á, hvorki einn einstaklingur né einn stjórnmálaflokkur umfram annan. Ástandið á húsnæði Landspítalans er ekki að verða svona í dag heldur hefur langvarandi vanhirða greinilega átt sér stað ansi mörg undanfarin ár. Launakjör lækna eru ekki ný í umræðunni eftir niðurskurð undanfarinna ára og þessi tímapunktur verkfallsaðgerða lækna er að mörgu leyti skiljanlegur. Við vitum það sem viljum að vinna snýst ekki bara um laun, hún snýst ekki síður um starfsumhverfi, álag og andrúmsloft á vinnustað.

Við megum ekki missa reynslumikið og vel menntað fólk úr heilbrigðisgeiranum út af sjúkrahúsunum svo ég tali nú ekki um úr landi. Þjóðin gerir þá kröfu að allir setjist niður og klári málið á sanngjarnan hátt fyrir báða aðila svo að heilbrigðiskerfið komist í eðlilegt horf. Á móti trúi ég því að þjóðarsátt skapist um að þó að læknar fái meiri hækkun en aðrir hafa fengið þá verði það ekki fordæmisgefandi fyrir þá hópa sem koma á eftir og vildi ég gjarnan sjá yfirlýsingar frá verkalýðsforingjum um það.

Við alþingismenn tökum höndum saman og flýtum eins og kostur er gjaldeyrisskapandi verkefnum eins og vatnsaflsvirkjunum og komum með tímasetta áætlun um að bæta aðbúnað lækna og hjúkrunarfólks með byggingu nýs Landspítala. En til þess að standa undir áframhaldandi velmegun og háu menntunarstigi og góðri heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) á Íslandi þurfum við að halda áfram að nýta auðlindir landsins til verðmætasköpunar.