144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

Túlkasjóður.

[11:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Guði sé lof er langt til kosninga. Það kann auðvitað að fara svo að ráðherraskipti verði en ég mun gera allt sem ég get til að koma í veg fyrir það. [Hlátur í þingsal.]

Hér drepur hv. þingmaður á mjög mikilvægu máli. Forsaga málsins er sú að tekin var ákvörðun um það í tíð síðustu ríkisstjórnar að hækka taxtann fyrir túlkaþjónustuna. Ég geri í sjálfu sér ekki ágreining um þá ákvörðun, ég held að hún hafi verið óumflýjanleg, en ég hef auðvitað vakið athygli á því áður í þessum ræðustól að ég hefði talið það eðlilega stjórnsýslu á þeim tíma að tryggja fjármuni til þjónustunnar um leið og tekin var ákvörðun um að hækka taxtann. Það var ekki gert. Þá kom upp sú staða í fyrra að sjóðurinn var uppurinn. Þá varð umræða um það og gripið til þess ráðs að bæta við 6 millj. kr. í fjárauka til þess að mæta þeirri þörf. Sú hækkun var látin ná á næsta ár á eftir, þ.e. árið sem nú stendur yfir.

Síðan gerist það að upp kemur nákvæmlega sama staða og á svipuðum tíma. Af því að hv. þingmaður spyr um samstarfið við Samskiptamiðstöðina þá er það ágætt, ekkert undan því að kvarta, en það er augljóst að við þurfum að finna betur út úr því hvernig við útdeilum þessum fjármunum. En ég vil segja eitt, af því að mér finnst stundum bera á því í umræðunni, að ekki má gleyma því varðandi túlkaþjónustu við þá sem á henni þurfa að halda að þetta er bara einn afmarkaður þáttur þess starfs. Í framhaldsskólakerfinu er til dæmis túlkaþjónusta veitt og í heilbrigðisþjónustunni og í almennum ríkisrekstri er slík þjónusta einmitt veitt af því að það er krafa um það. Hér er um að ræða sjóð sem var settur á laggirnar á sínum tíma til að koma til móts við þá sem þurfa að kaupa þjónustu í daglega (Forseti hringir.) lífinu til að létta þar undir. En ég er ekki viss um að tilgangurinn með þeim sjóði hafi verið sá að (Forseti hringir.) hann mundi alfarið sjá um alla þá þjónustu og greiða fyrir hana.