144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[14:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem við ræðum hérna er leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum vegna forsendubrestsins í hruninu. Þegar ég les um forsendubrestinn sem varð klárlega í hruninu vegna verðtryggðra húsnæðislána þá hugsa ég strax til þess að sú leiðrétting sem á núna að fara í og á að taka fjögur ár kemur kannski fyrir dómstóla um mitt næsta ár. Eftir nokkra daga, 24. þessa mánaðar, mun EFTA-dómstóllinn gefa álit um það hvort útfærsla verðtryggðra húsnæðislána standist lög, hvort hún sé óréttmæt. Það er dómsmál í gangi núna sem verður tekið fyrir til aðalmeðferðar í byrjun desember þar sem umboðsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna er í máli gegn Íbúðalánasjóði á nákvæmlega þessum forsendum, að útfærsla verðtryggðra húsnæðislána sé ólögmæt. Hverjir eru sammála þessari niðurstöðu? Við fáum að heyra hvort EFTA-dómstóllinn sé sammála þessari niðurstöðu 24. þessa mánaðar og ef svo er er EFTA-dómstóllinn sammála ESA, sinni eigin eftirlitsstofnun, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Neytendastofu á Íslandi. Ef þetta álit verður á sama veg, að þetta séu ólögmætir viðskiptaskilmálar, þá getum við verið nokkuð viss um að Hæstiréttur ætlar ekki að ganga gegn þessu öllu. Hann hefur alla vega aldrei gert það áður, það vitum við, hann hefur aldrei áður gengið gegn áliti EFTA-dómstólsins hvað þetta varðar.

Við vitum líka að Hæstiréttur mun þurfa að taka ákvörðun um þetta og dæma um þetta um mitt næsta ár. Það verður lokaákvörðun. Það verður ekki hægt að áfrýja málinu. Um mitt næsta ár fáum við að sjá fyrir Hæstarétti hvort forsendubresturinn verði ekki bara leiðréttur lögum samkvæmt fyrir dómstólum. Þá verður forsendubresturinn farinn. Hvað á þá að gera? Þá eru fjögur ár eftir, fólk verður búið að fá greiðslu einu sinni, en þá verða þrjú ár eftir í viðbót. Hvað á þá að gera? Það er stóra spurningin.

Þið skuluð fylgjast með 24. þessa mánaðar. Takið eftir tímasetningunni, þetta skiptir máli varðandi fjárlögin, að sjálfsögðu. Það er á fjárlögum að útdeila þessum 20 milljörðum á þessu ári þó að það sé ekki alveg rétt að þetta komi bara úr ríkissjóði því að ríkisstjórnin á gott skilið fyrir að hafa fundið mjög góða leið til að innheimta þessa peninga þannig að þeir koma frá þrotabúunum. Rétt skal vera rétt. Það er góð leið. Hún er ekki alveg örugg, það gæti verið að hún standist ekki lög en það er mjög ólíklegt. Þetta virðist vera mjög góð leið til að ná í þessa peninga inn í ríkissjóð og fara þaðan aftur til heimilanna. Það er gott.

Eftir stendur: 2. umr. fjárlaga átti að vera 20. þessa mánaðar en var færð um viku af því að við getum ekki farið inn í 2. umr. fjárlaga án þess að vita hvað EFTA-dómstóllinn segir 24. nóvember um það hvort þetta séu lögmætar útfærslur á verðtryggðum húsnæðislánum. Þetta er stóra spurningin um forsendubrestinn.

Hvernig þessir peningar voru innheimtir fannst mér góð nálgun. Við eigum eftir að horfa upp á dómsmálin. Við skulum ekki fagna alveg strax því að við vitum ekki hvort þetta er öruggt, hvort þessir peningar séu í höfn.

Það er annað sem við verðum að horfa til líka: Þessir peningar verða ekki til úr engu. Þeir koma úr þessum þrotabúum. Þetta auðveldar ekki samningaferlið um afnám haftanna. Það er hliðarkostnaður, kostnaður sem við verðum að taka inn í myndina. Þetta auðveldar ekki afnám haftanna. Þeir peningar sem sitja eftir á Íslandi og ríkissjóður getur náð til sín eftir að hann hefur annaðhvort leyst upp búin eða náð samningum verða þá þeim mun minni eftir því sem bankaskatturinn nær peningum inn núna. Þetta er ekki ókeypis, þetta eru ekki peningar sem eru galdraðir upp úr hatti. Við verðum að horfa til þess og viðurkenna það.

Hvernig þessum peningum er úthlutað er spurning um heildarupphæðina. Kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins varðandi heildarupphæðina standast. Hann var með tvo liði í sinni útfærslu við að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Sá fyrri var að vísu að í staðinn fyrir að ná í peninga til þrotabúanna að nýta skattafslátt, fólk gæti nýtt skattafslátt sem mundi greiðast inn á höfuðstól lánanna þess til að lækka hann. Það er einfaldari aðgerð og þurfti ekki að stofna upp nýtt lán o.s.frv., eins og í þeirri tiltölulega flóknu aðgerð sem er núna í framkvæmd. Aftur á móti er upphæðin lægri.

Í kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins er sagt að maður fái allt að 40 þús. kr. á mánuði í sérstakan skattafslátt. Í dag er þetta — hvað? Svona meðalfjölskylda? Getur einhver í þingsal hjálpað mér? 7 þúsund á mánuði? 9 þúsund? Eitthvað svoleiðis? (Gripið fram í.) Það sem fólk fær í lækkun á greiðslubyrði á mánuði. Í loforði Sjálfstæðisflokksins var talað um 40 þús. kr. í skattafslátt. Þar stendur aðeins út af en heildarupphæðin sem átti að lækka lækkaði íbúðalánið um allt að 20% á fimm árum. Nú eru þetta fjögur ár. Og 20%, já, meðallánið lækkar um eitthvað svoleiðis þannig að kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins er tiltölulega nærri lagi þótt útfærslan sé aðeins önnur í stjórnarsamstarfinu. Svo er seinni þátturinn, hann stenst alveg. Það er enn meiri höfuðstólslækkun með séreignarsparnaði. Sú aðferð, það kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins stenst enda hefur hann ekki lækkað mikið í fylgi frá kosningum. Fólk virðist ekki vera það vonsvikið að það sýni sig í könnunum á atkvæðavægi.

Varðandi væntingar kjósenda Framsóknarflokksins hljóðar heildarpakkinn upp á 80 milljarða. Segjum að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi aldrei sagt 300 milljarðar, hann hafi aldrei sagt 200 milljarðar, segjum að hann hafi ekki einu sinni sagt 180 milljarðar, segjum að hann hafi bara sagt 160 milljarðar, þá er það helmingi meira en það sem er í boði. (Gripið fram í: Hann sagði það aldrei!) Nei, hann sagði það nefnilega aldrei, ég veit það. En ég held að væntingar kjósenda séu einhvern veginn þannig ef við horfum bara á að fylgi flokksins hefur minnkað um helming frá kosningum. Það segir sitt um væntingar kjósenda. Kannski voru framsóknarmenn ekki nógu skýrir og forsætisráðherra ekki nógu skýr fyrir kosningar en það er klárt að kjósendur eru vonsviknir. Kjósendur Framsóknarflokksins eru vonsviknir. Það sýnir sig í fylgistölum.

Varðandi tímann sem aðgerðin tekur, fjögur ár, þá tekur hún einu ári minna en Sjálfstæðisflokkurinn lagði upp með. Varðandi aðferðafræðina við úthlutunina þá eigum við eftir að sjá það í fylgistölum hvort fólk sé ánægt með það hvernig þessu fé verður úthlutað. Ég man alveg hvernig þetta var á framboðsfundum fyrir kosningarnar. Fólk sá fyrir sér að það mundi fá einhverja peninga í hendur en útfærslan er ekki sú, útfærslan er þannig að fólk fær aðeins minni greiðslubyrði. Hvort væntingar séu þar brostnar munum við sjá af umræðunni.

Leiðréttingin, segir hæstv. forsætisráðherra, er réttlætismál. Eitt stærsta réttlætismál heimila landsins sem urðu fyrir þessum forsendubresti er að fá það dæmt fyrir dómstólum, sem verður gert á næsta ári, hvort verðtryggð húsnæðislán þeirra séu ólögmæt. Þarna hefði síðasta ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn getað beitt heimildum sem þær höfðu í lögum um að leita lögbanns eða höfða dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Þessi heimild var til staðar. Hún var til staðar allt síðasta kjörtímabil og hún hefur verið til staðar allt þetta kjörtímabil þangað til því var nýlega breytt á þá vegu að stjórnvöld eiga ekki að fara í þetta, en þau gátu gert það þangað til. Þetta er stærsta réttlætismálið, að farið sé að lögum í landinu. Stjórnvöld hefðu getað greitt götuna miklu betur hvað þetta varðar.

Við skulum aftur segja að rétt skuli vera rétt og segja það sem vel hefur verið gert. Strax á sumarþinginu voru sett lög um að neytendalán sem varða gengistryggingu og verðtryggingu ættu að fá flýtimeðferð. Það er gott, það var vel gert, en það var ekki beitt öllum ráðum í þessu stærsta réttlætismáli landsmanna. Það hefði verið hægt að gera það.

Aftur stöndum við frammi fyrir þessu: Við erum að ræða leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum vegna forsendubrests í hruninu sem er réttlætismál. Hvað gerist ef forsendubresturinn hverfur vegna réttlætis sem félagasamtök hafa náð fram en ekki ríkisstjórnin? Hvar stöndum við þá? Það er stóra spurningin.