144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur hv. þm. Frosti Sigurjónsson bent á hættu fyrir Seðlabankann af því að taka við fé til ávöxtunar frá viðskiptabönkunum á vöxtum og telur og hefur lagt fram rök fyrir því að Seðlabankinn tapi 7 milljörðum á ári hverju á þessu. Hann tekur dæmi af manni sem leggur 100 þús. kr. inn í viðskiptabankann sinn á 1% vöxtum, bankinn fer með sama 100 þúsundkallinn upp í Seðlabanka og fær 5%. Ég fékk smálínu frá félaga mínum í morgun sem sagði: Af hverju má ég bara ekki leggja beint inn í Seðlabankann? Ég á ekki svar við því, því miður.

En það er hins vegar athugunarefni nú að seðlabankastjóri sagði á fundi í gærmorgun að vextir væru ákveðnir á grundvelli markmiða um stöðugleika. Hann sagði þar, með leyfi forseta:

„Ef að þeir telja að það sé hægt að ná þessu markmiðum öðruvísi án þess að taka áhættu, og það er vel grundað, þá erum við alveg til í að skoða það, og við munum skoða það. En við förum ekki að fórna verðbólgumarkmiðinu til þess að ná í 5 til 10 milljarða, það er alveg ljóst.“

Í nýlegri ræðu sagði þessi sami seðlabankastjóri, á viðskiptaþingi, með leyfi forseta:

„Það er ekkert fremur æskilegt að verðbólga sé fyrir neðan markmið heldur en fyrir ofan. Í þessu sambandi megum við ekki falla í þá gryfju að ætla að tæki peningastefnunnar séu það öflug og hraðvirk að verðbólga geti alltaf verið 2,5%.“

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg skýr á því hvað seðlabankastjóri á nákvæmlega við þarna. Það er reyndar annað að á þessum sama fundi í gærmorgun var talað þannig um rekstrarkostnað Seðlabankans að ég held að það sé alveg einboðið, ágætu þingmenn, að þegar við á næstu dögum tökum til umfjöllunar nýtt frumvarp um Seðlabanka Íslands skoðum við akkúrat þessi atriði mjög gaumgæfilega.