144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Það sem hv. þingmaður spáir er fjármagnsflótti frá Evrópusambandinu til Íslands vegna þess að það eru lágir vextir og lítill hagvöxtur í Evrópusambandinu. Við getum að sjálfsögðu vonast til þess að ef þessi fjármagnsflótti kemur hingað fari hann ekki í eyðslu. Ef hann fer í fjárfestingu er það fínt mál (Gripið fram í.) sem skapar atvinnu til framtíðar og hagvöxt þannig að ég sé ekki hættuna.

Hættan er mest ef sama staða og sama peningamálastefna verður við lýði eins og fyrir hrun þegar innlánsvextir voru allt of háir hér á landi og hvöttu menn til að flytja inn gjaldeyri sem fór inn á innlánsreikninga og þaðan beint yfir í neyslu. Ég sé það samt ekki endilega gerast á næstu árum. Menn hafa slæma reynslu af þeim vaxtaskiptasamningum sem menn hafa gert í gegnum tíðina erlendis þannig að ég óttast ekki að það byrji.

Ef hins vegar kæmi inn erlent fjármagn er það til fjárfestingar. Það er jákvætt. Við þurfum svo að taka okkur tak á Alþingi og bæta stöðu sparifjáreigenda og þeirra sem leggja fyrir þannig að fólk eyði almennt meira í sparnað og fjárfestingu en í eyðslu. Ef það tekst þurfum við kannski ekki eins mikið á Seðlabankanum að halda til að halda niðri verðlagi.