144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Í þingskjali segir að 1. minni hluti fjárlaganefndar leggi fram nefndarálit og breytingartillögur. Það kemur til vegna þess að það eru miklar annir hjá þingmönnum og voru tveir þingmenn úr meiri hluta fjárlaganefndar að sinna embættisskyldum erlendis þannig að þau sem undir þetta nefndarálit skrifa eru auk mín hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.

Nefndin hefur haft frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014 til umfjöllunar frá 11. nóvember sl. og fengið á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins til þess að fara yfir helstu þætti þess. Einnig hefur nefndin leitað skýringa á einstökum gjaldatilefnum með því að fá fulltrúa velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á fundi nefndarinnar. Að auki hafa fulltrúar frá Ríkisendurskoðun og Seðlabanka Íslands komið fyrir nefndina. Þá hefur nefndin fundað með fulltrúum verkefnisstjórnar um höfuðstólsleiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána.

Nefndin hefur farið yfir þau erindi sem henni hafa borist og gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 16.922 millj. kr. til hækkunar gjalda og 16.356 millj. kr. til hækkunar tekna á rekstrargrunni.

Með þessum breytingum verður heildarjöfnuður á rekstrargrunni jákvæður um 43,2 milljarða kr. sem er 42,3 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Meginskýringin liggur í hækkun tekjuáætlunar um 72,4 milljarða kr. Í frumvarpinu og breytingartillögunum eru óreglulegar tekjur og gjöld mjög veigamikil og nauðsynlegt að draga fram afkomuna án þeirra liða.

Frá framlagningu fjáraukalagafrumvarpsins hafa tekjur ríkissjóðs verið endurmetnar í ljósi nýrrar þjóðhagsspár auk endurmats í kjölfar álagningar á lögaðila sem fram fór í október sl. Almennt séð er nokkuð gott samræmi á milli þjóðhagsspár Hagstofu Íslands og þróunar sem lesa má úr innheimtugögnum um einstaka skattstofna. Þetta eru mjög gleðilegar fréttir.

Í breytingartillögum á tekjuhlið munar mest um sérstakan fjársýsluskatt sem lagður er á öll fjármálafyrirtæki umfram tiltekna veltu og hækkar tekjuáætlun um 13 milljarða vegna hans og um 5 milljarða vegna hækkunar á tekjuskatti lögaðila. Samtals er hækkunin því 18 milljarðar kr. Það er langveigamesta hækkunin í breytingartillögum á tekjuhlið og hún flokkast öll undir tekjuskatt lögaðila í tekjusundurliðun. Aðrar hækkanir á tekjuhlið eru meðal annars 4,7 milljarðar vegna tekjuskatts einstaklinga og 2,4 milljarðar vegna fjármagnstekjuskatts einstaklinga en helstu þættir endurmats skýrast af bata á vinnumarkaði, bæði varðandi atvinnustig og launaþróun, hagstæðari innheimtuþróun og hærri fjármagnstekjum einstaklinga en áður var gert ráð fyrir. Tryggingagjöld hækka um 374 millj. kr. af sömu ástæðu. Þjóðhagslegar forsendur hafa þannig breyst umtalsvert í jákvæða átt frá forsendum fjárlaga fyrir árið 2014. Viðsnúningurinn er áberandi og sjáanlegur.

Á móti vegur að nú er gert ráð fyrir 5 milljarða kr. tekjulækkun frá fyrri áformum um fjárhagsleg samskipti við Seðlabanka Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 26 milljarða kr. tekjufærslu í tengslum við lækkun á skuldabréfi ríkissjóðs við bankann, en nánari athugun á reikningshaldslegri framsetningu lækkunarinnar og endurmat á afkomu bankans bendir til að þessar tekjur verði nú 21 milljarður kr. Einnig vegur til lækkunar að gert er ráð fyrir 4 milljarða kr. lækkun á bankaskatti með hliðsjón af álagningu í október.

Við gjaldahlið frumvarpsins eru lagðar til breytingar. Langveigamesta tillagan er 16 milljarða kr. flýting á greiðslum vegna verkefnisins um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána heimila. Upphaflega var gert ráð fyrir að afborgun leiðréttingarlána næmi 16,2 milljörðum á árinu og dreifðist á árin 2014–2017. Því til viðbótar var áætlað að 1,8 milljarðar af leiðréttingunni fælust í sérstökum persónuafslætti sem kæmi til lækkunar á tekjuáætlun ríkissjóðs árin 2015–2018. Þá var gert ráð fyrir 7,4 milljarða kr. vaxtakostnaði sem greiddur yrði til lánastofnana og loks var kostnaður við aðgerðina sjálfa áætlaður um 1 milljarður, samtals 80 milljarðar kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að greiðsluflæðinu verði flýtt, m.a. með hliðsjón af áætlun um betri afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári þar sem mest munar um tekjuaukningu vegna fjársýsluskatts. Þannig er gert ráð fyrir að 36 milljörðum verði varið til afborgunar leiðréttingarlána á þessu ári, auk þess sem afborganir á árunum 2015 og 2016 verði greiddar í byrjun árs en ekki í árslok eins og áður hafði verið ráðgert. Með þessu móti sparast umtalsverður fjármagnskostnaður sem ella hefði verið greiddur til lánastofnana en nýtist nú til frekari leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna.

Af öðrum breytingartillögum á gjaldahlið munar mest um 442 millj. kr. hækkun til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna endurmats á tekjuáætlun ársins. Þá eru tillögur um 329 millj. kr. millifærslu af lið fyrir ófyrirséð útgjöld yfir á einstakar ríkisstofnanir vegna viðbótarkostnaðar þeirra í tengslum við eldsumbrot norðan Vatnajökuls. Um er að ræða áfallinn kostnað í ágúst og september sem talinn var vera umfram það sem viðkomandi stofnanir eru taldar ráða við með fjárheimildum fjárlaga. Rétt er að geta þess að kostnaður af þessu tilefni fellur til áfram og endanlegur kostnaður vegna eldsumbrotanna liggur ekki fyrir. Því er ekki útilokað að leggja þurfi til frekari millifærslur af þessu tagi fyrir 3. umr.

Við í meiri hlutanum vekjum sérstaka athygli á þeim hluta greinargerðar með frumvarpinu sem fjallar um hlutverk fjáraukalaga og frávik frá fjárlögum. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt fjárreiðulögum er fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, svo sem áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða til dæmis rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana, enda er mælt fyrir um í lögum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárlagaár. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli hefur raunin verið sú að oft hafa komið fram veruleg frávik frá heildargjöldum í fjáraukalögum. Þá hefur endanlegt uppgjör ríkisreiknings leitt í ljós enn meiri frávik en komið hafa fram í fjáraukalögum fyrir viðkomandi ár.

Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að spornað sé við þessari þróun með því að beita agaðri vinnubrögðum við gerð og framkvæmd fjárlaga. Reyndar hefur aukið aðhald í ríkisfjármálum sem innleiða þurfti í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 stuðlað að talsvert bættu verklagi að þessu leyti undanfarin ár. Betur má þó ef duga skal en í frumvarpinu núna er að finna fjárveitingar sem eru því miður ekki til fyrirmyndar að þessu leyti.

Sem dæmi um slíkt má nefna 130 millj. kr. framlag til rannsóknarnefnda Alþingis. Fjárveitingin er til komin vegna þess að áætlanir um verklok tveggja nefnda, um sparisjóðina og um Íbúðalánasjóð, hafa hvað eftir annað brugðist og dráttur á skilum kallað á síaukin útgjöld bæði í fjárlögum og fjáraukalögum frá árinu 2011. Umræddar 130 milljónir eru lokaframlag af þessu tilefni og nemur þá heildarkostnaður við þessar tvær nefndir 930 millj. kr. samtals. Þar að auki hefur langstærstur hluti útgjaldanna nú þegar verið greiddur úr ríkissjóði þrátt fyrir að ekki sé búið að samþykkja fjáraukalög. Meiri hluti fjárlaganefndar átelur þessi vinnubrögð en við teljum engu að síður óhjákvæmilegt að leggja til að tillagan verði samþykkt í trausti þess að slíkt gerist ekki aftur. Fjárlaganefnd hefur margoft fengið á fund til sín fulltrúa Alþingis til að fara yfir þessi mál.

Í fjáraukalögum í fyrra var miklu fjármagni dælt inn í þennan fjárlagalið og var þá talið að um lokagreiðslu væri að ræða. Svo reyndist ekki vera og við sitjum uppi með orðinn hlut. Raunverulega er verið að stilla fjárveitingavaldinu hér upp við vegg vegna þess að nú þegar hefur verið greitt inn á þennan lið án fjárveitinga. Ég minni á að þegar fjárlaganefnd fór á sínum tíma yfir veikleikamat fjárlaga 2014 var þetta strax komið í ljós. Svo snemma á árinu fékk fjárlaganefnd skilaboð um að þarna vantaði þessar miklu fjárhæðir inn í fjárlögin og kom það fjárlaganefnd mjög á óvart, sér í lagi vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þessum fjárlagalið fyrir fjárlög 2014 þó að jafnvel vitneskja hafi verið um að þarna vantaði. Þetta er ekki til eftirbreytni og sem dæmi má nefna að meiri hluti fjárlaganefndar gagnrýndi ríkisstjórnarsamþykkt frá því í sumar í fjárlagalið um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða því að þá hafði úthlutun án fjárheimilda Alþingis átt sér stað byggð á ríkisstjórnarsamþykkt. Því miður gengur þessi fjárheimild sem verið er að fara fram á hér frá sjálfu Alþingi Íslendinga enn lengra því að ekki er nein skýring eða ríkisstjórnarsamþykkt að baki henni. Úr þessu þarf að bæta.

Ég sagði áðan að þetta væri lokagreiðsla inn á þennan fjárlagalið við uppgjör rannsóknarnefndanna en því miður er boðað í frumvarpinu sjálfu að einar 10 eða 20 milljónir vanti enn til að skrá gögn hjá Þjóðskjalasafni Íslands en meiri hluti fjárlaganefndar telur að það verði að finna betri tíma til þess þegar betur árar í ríkisbúskapnum og boðar að það verði í það minnsta ekki á næstu tveimur árum, enda liggur svo sem ekki á að skrá þetta með þeim hætti ef fjármagn er ekki til.

Nú ætla ég aðeins að fara yfir þær breytingartillögur sem koma til útgjalda. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að Alþingi fái ekki þær 8 milljónir sem gerð var tillaga um fyrir 2. umr., einfaldlega vegna þess að stofnunin tekur til sín um 2.800 milljónir og það hlýtur að vera svigrúm innan svo stórs fjárlagaramma til að finna þessar 8 milljónir til að ráðstafa vegna viðgerða á húsnæði. Við leggjum því til að það fari ekki inn í fjáraukalög.

Eins og ég fór yfir áðan verður fjárlaganefnd að bregðast við eldgosinu norðan Vatnajökuls. Það var stofnaður samráðshópur fimm ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruvá sem var falið að yfirfara fjárþörf og kostnað vegna þessara hamfara. Hópurinn fór yfir kostnaðaráætlanir og lagði mat á viðbótarheimildir til sjö stofnana, þ.e. Háskóla Íslands, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands, Vegagerðarinnar og jafnframt Veðurstofu Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar. Þetta fer úr þeim lið á fjárlögum yfirstandandi árs sem heitir óvænt útgjöld og svo sannarlega fellur þessi beiðni vel undir fjáraukalagafrumvarpið því að það voru svo sannarlega óvænt tíðindi þegar fór að gjósa.

Við gerum tillögu um að Háskólinn á Akureyri fái 30 millj. kr. framlag til að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara, ýmsa stjórnsýslu og stoðþjónustu. Fjárveiting af svipuðum toga var í fjárlögum fyrir árið 2013 en var tímabundin og féll niður í fjárlögum fyrir árið 2014.

Meiri hlutinn gerir tillögu um að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái 15 millj. kr. framlag þar sem skólinn hefur lengi glímt við verulegan rekstrarvanda. Gripið hefur verið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða á árinu og stefnir í að verulegur árangur náist til kostnaðarlækkunar en dregist hefur lengi að taka á rekstri stofnunarinnar. Einskiptiskotnaður sem nemur 15 millj. kr. er fyrirséður innan ársins, einkum vegna rektorsskipta, og er tillögunni ætlað að mæta þeim kostnaði.

Við leggjum til að Háskólinn á Hólum fái 5 millj. kr. framlag þar sem skólinn hefur orðið fyrir miklum ófyrirséðum kostnaði, m.a. vegna kals í túnum í tvígang sem hefur valdið verulegum aukakostnaði í rekstri skólans sem ákveðið var að bregðast við með þessum hætti.

Við gerum það að tillögu okkar að það fari aukalega 35 millj. kr. inn í framhaldsskólana til viðbótar við þær 400 milljónir sem eru í frumvarpinu. Þetta er gert til að mæta tímabundnum erfiðleikum fámennra framhaldsskóla vegna nemendafækkunar. Eins og ég segi kemur þetta til viðbótar við 400 milljónirnar og nemur þessi styrking því 435 milljónum.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að ræða meira um næstu tillögu okkar. Mikil umræða hefur verið um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þar er mikil fjárþörf. Meiri hluti fjárlaganefndar brást skjótt við þeim vandræðum sem komu þar upp og við gerðum tillögu um að Samskiptamiðstöðin fengi 4,5 milljónir í fjáraukalögum. Ég hef aðeins skoðað þetta því að mér barst til eyrna að þessi fjárhagsvandræði stöfuðu af því að gjaldskrá táknmálstúlka hefði hækkað svo mjög síðan á árunum þegar fyrri ríkisstjórn var við völd. Þess ber að geta að þessi endurgjaldslausa þjónusta byrjaði árið 2004 þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra og þá kom inn sérstök fjárveiting hjá Samskiptamiðstöðinni sem fór mest upp í 14 milljónir á þessum árum og það dugði fyrir 2.200 klukkustunda þjónustu á þessu tímabili. Korteri eftir kosningar í fyrra, í maí 2013 þegar engin ríkisstjórn sat í landinu, var gjaldskrá túlkaþjónustunnar hækkuð um 45%, hvorki meira né minna. Þegar þjónusta er hækkuð svona er að sjálfsögðu minna til ráðstöfunar. Kemur hækkunin því fram í þessu. Tímagjaldið eftir hækkunina er þá komið í 10.134 kr. Samhliða hækkuninni í maí 2013 kom 6 millj. kr. fjárveiting til viðbótar, bæði í fjáraukalög 2013 og varanlega í fjárlög 2014, og er þessi ríkisstjórn því búin að hækka heildarfjárveitinguna til þessa liðar um 18,6 milljónir á ári. Það sem er skrýtnast í öllu þessu máli, sem ég ætla að skoða þar til málið fer til 3. umr., er að stofnunin hefur tekið ákvörðun um að selja út hverja klukkustund fyrir rúmlega 10 þús. kr. en samt eru þeir sem veita þjónustuna launþegar hjá stofnuninni og taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Þá er erfitt að átta sig á því hvers vegna stofnunin er farin að selja út tíma sem íslenska ríkið greiðir í stað þess að þeir aðilar sem vinna þessi störf hjá stofnuninni geri það eins og áður var. Þetta verðum við að skoða því að ef þessu yrði breytt til baka og það yrði eins og fyrir hækkun væri hægt að fjölga tímum um rúmlega 440 stundir á ári fyrir þiggjendur þessarar þjónustu. Þarna verðum við að skoða hvort ekki sé hægt að fara betur með fjármagn og á einhvern hátt að breyta þessu. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt með þessum hækkunum að hún vill allt fyrir þennan hóp gera sem hægt er að gera fyrir það takmarkaða fjármagn sem við höfum.

Ég boða frekara framhald á þessari umræðu við 3. umr.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til að Ríkisútvarpið beri 10 millj. kr. skerðingu miðað við það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þetta er vegna fjarskiptafyrirtækis. Það var ríkisstjórnarsamþykkt fyrir 30 millj. kr. framlögum til að uppfylla þessa þjónustu. Þeir sem nota þjónustuna eru sjómenn á hafi úti og fjárlaganefnd fékk ekki haldbærar skýringar á því hvers vegna búið var að hækka liðinn um 10 milljónir og styður því ríkisstjórnina í því að þessi fjárlagaliður fái 30 milljónir eins og ríkisstjórnarsamþykktin í upphafi sumars hljóðaði upp á.

Við leggjum til að rúmlega 66 millj. kr. fjárheimild fari til stofnunar nýs sjóðs í eigu ríkisins, umhverfissjóðs sjókvíaeldis, í samræmi við lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hafi það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

Ég var búin að fara yfir þær stofnanir sem var bætt í fjármagni vegna eldgossins.

Lagt er til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 442 milljónir sem er í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög miðað við hlutföll af skatttekjum ríkisins og útsvarsstofni 2014. Þetta eru lögbundin framlög og ákvarðast af því hvernig reksturinn og tekjur ríkisins koma inn í réttu hlutfalli.

Við gerum það að tillögu okkar að í stað 70 millj. kr. skerðingar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði verði sjóðurinn skertur um 50 milljónir og fari þá 20 milljónir af því framlagi í að styrkja rekstur Vinnumálastofnunar þannig að ekki verði dregið eins hratt úr umfangi hennar.

Svo er stóra færslan í breytingartillögunum eins og ég fór yfir í byrjun ræðu minnar, niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila, fyrir 16 milljarða. Óþarft er að lesa það upp aftur eða hafa lengra mál um það.

Þetta eru áherslur meiri hlutans. Ef fólk vill lesa sér frekar til í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans er þetta að finna á þskj. 554, 555 og 556. Ég er hér einnig með álit minni hluta fjárlaganefndar. Menn hafa farið mikinn í umræðunni um að ríkisstjórnin geri ekki nógu vel í ýmsum viðkvæmum málaflokkum. Því undrar það mig að sjá hjá minni hlutanum engar tillögur um bætur eða hugmyndir um hvernig gera megi betur í ríkisrekstrinum á árinu 2014. Þetta er tækifæri til að gera breytingartillögur á frumvarpi til fjáraukalaga.

Ég kem til með að svara hér spurningum og fara í andsvör í dag en lýk máli mínu.