144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í fullri vinsemd að taka undir það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði. Ég held að forseti geri sér ekki grein fyrir þeirri þungu undiröldu sem þetta mál veldur og almennri reiði þingmanna yfir því hvílíkum tuddaskap er beitt hér. Þegar þannig mál koma upp hefði ég talið að það væri verkefni forseta að byrja á því að hlusta á þingflokksformenn. Ég veit ekki hvað þarf að undirbúa fyrir slíkan fund, ég skil það ekki. Ég vil ekki sýna virðingarleysi þó að ég segi það hér að ég skil ekki hvað hæstv. forseta meinar með því að hann þurfi að undirbúa sig. Hann þarf fyrst og fremst að byrja á því að hlusta á þingflokksformenn og áhyggjuefni þeirra. Þeir eru talsmenn okkar. Þeir vita hvernig í málum liggur og hjá þeim getur hann fengið nægar upplýsingar til að geta átt samtal um þetta. Ef hann þarf síðan að undirbúa sig eitthvað frekar eða kynna sér málið betur þá er það eðlilegt eftir þann fund.