144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[16:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir mjög ítarlega yfirferð yfir frumvarpið. Þetta er stórt og mikið mál, það mun bæta lagaumgjörðina og gera lögin aðgengilegri fyrir þá sem reiða sig mjög á þennan lagabálk í sinni framfærslu.

Að þessu sinni er ég aðeins með eina spurningu til hæstv. ráðherra sem varðar 11. gr. frumvarpsins. Þar er talað um, með leyfi forseta:

„Jafnframt getur ráðherra ákveðið að sameina þjónustustöðvar Tryggingastofnunar og þjónustustöðvar annarra opinberra stofnana.“

Í þessu sambandi voru nefndar Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun. Það eru uppi mjög mismunandi hugmyndir um hvort sameina eigi þær stofnanir. Það hefur oft komið til tals en ekki fundist niðurstaða í því. Ég vil spyrja ráðherra hvort hún telji ekki að þarna sé aðeins verið að fara fram hjá löggjafanum. Það sé í raun og veru verið að ákveða hálfgerða sameiningu án þess að löggjafinn taki ákvörðun þar um. Ég held að slík sameining hafi marga kosti og veiti heildstæðari þjónustu, en ég hef líka þá sterku tilfinningu að stórar stofnanir á sviði velferðarmála, þ.e. að kerfið, getið orðið svolítið allt um faðmandi við einstaklinginn og orðið dálítið kæfandi. Ég get því með engu móti stutt slíka tillögu nema með því að fara mjög vandlega yfir slíkt. Mig langar að spyrja ráðherra hvort ekki sé í raun verið að fara fram hjá löggjafanum þarna.