144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:09]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki orða bundist vegna ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, 5. þm. Reykvíkinga, þar sem ég held að þingmaðurinn blandi saman stjórnsýslueiningum og örnefnum. Hvað varðar byggðina á Búðareyri, sem gekk inn í Fjarðabyggð, þá er byggðin enn á Búðareyri og Reyðarfjörður enn á sínum stað og engin örnefni hafa horfið. Þannig er einnig með byggðina á Búðum í Fáskrúðsfirði. Fáskrúðsfjörður er á sínum stað, byggðin á Búðum er á sínum stað.

Við megum ekki blanda saman stjórnsýslueiningum og byggðakjörnum. Ég nefni líka að Kjalarnes er enn á sínum stað enda þótt byggðin á Kjalarnesi, sú stjórnsýslueining, hafi gengið inn í borgina Reykjavík. Þannig að örnefnin halda sér. Keflavík og Njarðvík eru fastar á sínum stað í Reykjanesbæ.

Ef ég man rétt efni frumvarpsins, sem ég hef nú ekki hér við höndina, þá er vísað til þess að byggðakjarnar geti haldið nöfnum sínum. Við megum því ekki alveg láta sem svo að örnefnin hverfi þó að til verði nýjar stjórnsýslueiningar.

Þessu vildi ég skjóta hér að. Ég veit ekki hvort þetta er andsvar, en þetta er alla vega innskot eins og það heitir í jarðfræðinni. Takk fyrir.