144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og hún kom mér að mörgu leyti á óvart, sérstaklega í ljósi stórra orða. Nú veit hv. þingmaður að það er verið að auka framlög í Ríkisútvarpið. Hv. þingmaður veit líka að í tíð sjálfstæðismanna hefur verið sett meira en sem nemur útvarpsgjaldinu inn í Ríkisútvarpið og hv. þingmaður talaði um hatursstefnu Sjálfstæðisflokksins. Er það hatur að setja meira en sem nemur tekjum af útvarpsgjaldinu inn í Ríkisútvarpið? Það er fyrsta spurningin.

Síðan er það hitt að hv. þingmaður fer mikinn, og hv. þingmaður er fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, um að hún vilji forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Hún var að koma úr ríkisstjórn þar sem ýmsir málaflokkar í hennar ráðuneyti voru framar í forgangsröðinni en heilbrigðismálin. Það er ekki nokkur leið að halda því fram að síðasta ríkisstjórn hafi forgangsraðað í þágu heilbrigðismála.

Hefur hv. þingmaður skipt um skoðun, og ég tel það þá bara gott, hvað þessa hluti varðar?