144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur eiginlega allt hv. þingmanni á óvart. Ég held að þetta sé opnunarsetning þingmannsins í hverju einasta andsvari á ræðu stjórnarandstöðunnar, það kemur honum allt afskaplega mikið á óvart.

En ég vil bara spyrja hv. þingmann á móti: Kannast hann ekki við ályktanir ungra sjálfstæðismanna, Heimdallar og SUS, í gegnum árin þar sem beinlínis er ályktað með því að selja Ríkisútvarpið, leggja það niður? Kannast hann ekki við greinar og leiðara Davíðs Oddssonar um að það eigi að loka Ríkisútvarpinu? Kannast hann ekki við blogg á Björn.is frá Birni Bjarnasyni um að það hafi verið vandræði í samstarfi við Framsóknarflokkinn að Framsóknarflokkurinn hafi ekki verið nógu mikið á móti Ríkisútvarpinu? Kannast þingmaðurinn virkilega ekki við þetta?

Nær hann ekki utan um það að halda þeirri heildarsýn að Sjálfstæðisflokkurinn, að hluta og stundum heild, hefur agnúast út í Ríkisútvarpið? Eru þetta einhverjar fréttir?