144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég sendi nýlega póst, nú rétt fyrir helgi, á forsvarsmenn allra heilbrigðisstofnana í landinu og spurði hver fjárþörfin væri. Ég ætla að lesa spurninguna, með leyfi forseta:

„Óskað er eftir upplýsingum um fjárþörf stofnana ykkar á næsta ári umfram það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. fjárlagafrumvarpinu, og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, svo að hægt verði að veita þá heilbrigðisþjónustu sem þið, forsvarsmenn heilbrigðisstofnana, metið nauðsynlega.“

Svarið er komið frá öllum heilbrigðisstofnunum, spítölunum tveim, Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslunni í Reykjavík og heilbrigðisstofnunum um land allt. Niðurstöðurnar eru þessar, þetta er það sem vantar umfram það sem ríkisstjórnin lagði fram í fjárlagafrumvarpinu og meiri hluti fjárlaganefndar lagði til í breytingartillögum sínum:

Landspítalinn, þar vantar 800 millj. kr. viðbót. Þessi milljarður, þúsund milljónir, sem verið er að leggja til í breytingartillögum meiri hlutans dugar þar af leiðandi 60% upp í þá fjármuni sem forstöðumenn þeirrar heilbrigðisstofnunar telja að þurfi til að veita nauðsynlega þjónustu. Sjúkrahúsið á Akureyri vantar 55 milljónir. Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 332 milljónir. Heilbrigðisstofnun Vesturlands. 935,3 milljónir. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 250 milljónir. Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 200 milljónir. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 102,8 milljónir. Heilbrigðisstofnun Austurlands, 345 milljónir og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 41,8 milljónir. — Þetta er það sem vantar upp á til þess að veita nauðsynlega þjónustu, sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um land allt meta svo, umfram það sem ríkisstjórnin leggur til og meiri hluti fjárlaganefndar, svo að þetta sé bara skjalfest.

Þetta er staðan og nú rétt á eftir erum við að fara að greiða atkvæði í 2. umr. um fjárlögin. (Forseti hringir.) Vonandi verður þetta lagað á milli umræðna svo að við sjáum (Forseti hringir.) meira fé fara í heilbrigðiskerfið, forgangsraðað þangað, í 3. umr.