144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, mér fannst skemmtilegt að heyra hversu fallega hv. þingmaður hugsar um Framsóknarflokkinn og í rauninni vill honum vel. Ég skal bara viðurkenna hér og nú að ég hef ekki hugsað þetta alveg eins. Kannski er hér að koma í ljós eitthvert kynslóðabil um það hvernig eldri og yngri þingmenn líta til þess hvernig stjórnmálaflokkar hafa þróast, ég skal ekki segja um það.

Mér finnst það mjög áhugaverðar pælingar um að setja virðisaukaskattinn á bókum niður í núll. Það er nokkuð sem ég tel að við ættum að skoða ítarlega. Eins og ég ýjaði að með spurningu minni til hv. þingmanns hef ég miklar áhyggjur af því hvert við sem samfélag erum að sigla með aukinni misskiptingu þar sem þeir sem hafa mjög lágar tekjur og berjast í bökkum geta ekki leyft sér neitt annað en rétt að reyna að ná endum saman um hver mánaðamót, borga það allra nauðsynlegasta en ekkert þar fyrir utan. Til þess að geta lifað innihaldsríku lífi er fleira sem við viljum leyfa okkur og ég held að, eins og hv. þingmaður minntist á með barnabækurnar, við eigum sérstaklega að hugsa um kjör barna í tekjulágum fjölskyldum. Til þess að geta náð að þroskast og eflast þurfa þau að hafa aðgang að fleiru en (Forseti hringir.) brýnustu nauðsynjum því að þótt matur sé kannski mannsins megin er menningin líka mikilvæg.