144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veit alveg, ef hann vill vera sanngjarn, að yfirleitt þegar við erum að framlengja skatta gerum við það rétt um það bil sem þeir eru að renna út. Það var ekki tilfellið þegar ég var í ráðuneytinu en kannski hefði maður átt að vera forsjáll og átta sig á því að ef hv. þingmaður og flokkur hans kæmist hér að væri eins gott að vera búinn að negla þetta niður. En er það þannig, virðulegi forseti? Hvað væri hv. þingmaður að gera þá? Væri hann ekki að afnema hann? Ég geri ráð fyrir því miðað við andstöðuna sem hann lýsti við þennan skatt hér í ræðustól áðan, þá væri hann væntanlega í þessari löggjöf að afnema þann skatt og þar með hækka skatta á þær atvinnugreinar sem ég nefndi áðan og hækka skatta á almenn matvæli í landinu. Hann mundi fjármagna afnámið með því.

Hv. þingmaður sagði áðan að það væri alltaf einhver sem borgaði, það eru einhverjir að kaupa heimilistæki, það er einhver að kaupa ísskápa og sjónvörp. Alveg hárrétt, það er einhver að því, sem betur fer. En það er líka fullt af fólki í þessu landi sem á ekki fyrir því en þarf að kaupa sér matvæli. (PHB: Þetta er á öllum heimilum.) Og það er það sem þessi hv. þingmaður er hér að segja að hann sé tilbúinn að gera til að fjármagna áhugamál sín og Sjálfstæðisflokksins í skattamálum, þ.e. að hækka skatta á þá sem eiga ekki fyrir öðru en mat. (PHB: Koma í veg fyrir skattsvik.) Og hvaða kross á það fólk að bera, tekjulægsta fólkið í þessu landi, ef eina leiðin til að koma í veg fyrir skattsvik sé að þyngja byrðarnar á það af því að það borgar sína skatta samviskusamlega og kemst ekki hjá því? (Forseti hringir.) Er það leiðin? Ég er ekki sammála því. Það er ekki leiðin að skattpína almenning í landinu til að komast hjá skattsvikum. Það er það ekki.