144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[16:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja að því sem hv. þingmaður kom að í lok ræðu sinnar og varðar breytingu á undanþágu frá vörugjöldum hvað varðar bílaleigubíla, nánar tiltekið 4. gr. breytingartillögunnar.

Við hv. þingmenn erum alveg sammála um að undanþágur í skattkerfinu eru óeðlilegar. Við erum líka örugglega sammála um að vörugjöld á bifreiðar sérstaklega eru í hæsta máta óeðlileg.

Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að þessi breytingartillaga hafa verið sett fram á síðustu mínútum umfjöllunar um frumvarpið og án nokkurrar greiningar á afleiðingum hennar á þá sem hún varðar. Ég hef tekið eftir því í fréttum að hagsmunaaðilar hafa sagt að þetta sé ekki fyrsta jólavertíðin þar sem þeir verði fyrir gríðarlegum breytingum hvað skattheimtu varðar í þessari grein, eins og ferðaþjónustan öll hefur þurft að sitja undir undanfarin ár.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, og hann vék svo sem lítillega að því í máli sínu, hvort til greina komi að fallast mögulega á það sjónarmið að hér sé með nokkuð drastískum hætti verið skera niður þá undanþágu sem hefur verið um helming. Er ekki möguleiki á því að endurskoða þann þátt á milli 2. og 3. umr.?