144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Við höfum lengi verið sammála um þetta tiltekna mál. Ég hjó eftir því áðan að hann nefndi að Íslendingar hefðu mátt taka aðeins fyrr við sér varðandi þetta mál.

Frumvarpið sem verið er að breyta núna er frá árinu 2009, en það vill svo til að þegar ég steig inn á Alþingi árið 2007 þá lagði ég fram frumvarp sem var nánast algjörlega sambærilegt því sem lagt var fram á árinu 2009. Ég man ekki eftir því að aðrir hafi lagt slíkt frumvarp fram áður.

Þetta er smá söguskýring í ljósi þess að það hefði að sjálfsögðu verið hægt að samþykkja þetta mál fyrr, við erum sammála um það, en ég minnist þess ekki að sambærilegt frumvarp hafi verið lagt fram á þinginu fyrr en þetta svokallaða stjórnarfrumvarp kom fram á árinu 2009, sem var svo samþykkt.

Mér sýnist nefndin í heild sinni leggja til mjög góðar breytingar á frumvarpinu sem ættu að styrkja það og vera til mikilla bóta. Ég varð nú glaður þegar ég hlustaði á ræðuna vegna þess að mér hefur fundist stjórnarandstaðan vera svo neikvæð í allan dag, hafa fundið allt til foráttu flestu því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera. En um leið hljótum við að fagna því þegar menn koma fram og ræða ítarlega um það sem vel er gert.