144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi auðlegðarskattinn þá verður hv. þingmaður nú að grafa þetta upp ef ég á að hafa sagt það. (ÖS: Mig minnti það.) — Hv. þingmann minnti það, já. Það væri ágætt ef hann mundi grafa það upp, internetið gleymir ekki. Ef ég hef sagt það þá er það þarna, en ég stórefast um það. Ég er ekkert á móti því að þegar heilbrigðiskerfið nær ekki upp á yfirborðið, er undir vatni, þá séu settir á sérstakir skattar til að ná því upp, ef það er það sem þarf. En það er ekki það sem þarf, það er ekkert það sem þarf, þ.e. sérstakir skattar á auðlegð, veiðigjöldin mundu alveg duga og vel það til að ná okkur upp fyrir yfirborðið og miklu meira en það.

Þetta er svo sanngjarn skattur vegna þess að ríkið tryggir einokun, sér til þess að aðrir gangi ekki í sameiginlega auðlind. Þess vegna er sá skattur sanngjarn. Það er verið að útiloka almenning og almenningur á að fá gjald fyrir, sérstakt gjald; það á ekki að vera sama gjald og hjá þeim sem til dæmis geta stofnað verslun, það þarf ekkert sérstakt gjald á það, þeir borga sinn virðisauka og aðra skatta eins og allir aðrir sem eru í bisness. En sjávarútvegurinn er sérstakur bisness, hann fær heimild til að útiloka aðra frá nýtingu auðlinda.

Hv. þingmaður talaði um að halda störfum hér áfram, hann útskýrir kannski fyrir mér hvers vegna við ætlum ekki að halda þinginu starfandi fram að jólum og lengur ef þarf. Þetta er vettvangur sem við höfum hér til að tala, til að vekja athygli á læknadeilunni o.s.frv. Það hlýtur að skipta máli að rödd okkar og rödd lækna og rödd heilbrigðiskerfisins og forgangsröðunar þar fái að heyrast áfram. Það hlýtur að vera stuðningur við áframhaldandi forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.