144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er eiginlega mjög dapurlegt að hugsa til þess hversu ginnkeypt fólk er fyrir tali um skattalækkanir. Þegar ég horfi heildrænt á fjárlögin er eins og skattalækkanir séu teygjanlegt hugtak og það þýði kannski eitthvað allt annað hjá þeim sem segjast ætla að fara í slíkt þegar á hólminn er komið.

Ég hef tekið eftir því þegar skattar lækka eða vörugjöld sem núna eiga að lækka og þegar það voru lækkanir á skatti hérna áður hvernig slíkar lækkanir skila sér út í verðlagið og hvernig skattahækkanir skila sér út í verðlagið. Ég hef til dæmis tekið eftir því, eins og allir sem fylgjast með fréttum, að olíuverð hefur lækkað mjög mikið og það hefur tekið alveg óhemju langan tíma að skila sér út í verðlagið og í raun í engu samræmi við lækkanirnar. Aftur á móti ef olíuverð hækkar þá hækkar það strax hjá þeim aðilum sem selja slíkt í smásölu hér.

Heldur þingmaðurinn að það sé möguleiki á að eitthvað svipað verði upp á teningnum núna með þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar?