144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Á dögunum fór velferðarnefnd Alþingis í heimsókn til umboðsmanns skuldara og fékk innsýn í starfið sem þar er rekið. Á ýmsan hátt er starfsemin að breytast hjá embættinu frá því í hruninu þegar því var komið á. Þá var mest aðkallandi verkefnið að hjálpa fólki í greiðsluaðlögun vegna skulda í húsnæði sínu. En tímarnir eru breyttir núna sex árum eftir hrunið, heimili með fasteignalán eru að rétta úr kútnum, Seðlabankinn hefur gefið út að heildarskuldir heimilanna séu komnar undir 100% af landsframleiðslu, skuldir heimilanna eru 45% af heildareigum þeirra og fasteignalánin eru 40% af heildarverði fasteignanna. Það er vegna þess að það árar betur og fasteignaverð fer hækkandi.

Eftir situr annar hópur í skulda- og greiðsluvanda sem lítið er hugsað um. Þetta er ungt fólk sem á ekki húsnæði en þarf að borga háa leigu, þarf að borga af verðtryggðum námslánum sem stökkbreyttust líka og þetta unga fólk er oft með ung börn á framfæri. Þetta sýna gögn frá umboðsmanni skuldara og Morgunblaðið birti þau í dag. Þar kemur fram að meiri hluti þeirra sem hafa sótt um greiðsluaðlögun hjá stofnuninni á þessu ári er ekki með fasteignaveðlán heldur ungt fólk sem býr í leiguhúsnæði. Samt sem áður leggur þessi ríkisstjórn 80 milljarða úr ríkissjóði til handa fasteignaeigendum alveg óháð því hvort þeir ná endum saman um hver mánaðamót eða ekki. Að sögn umboðsmanns skuldara er útlit fyrir að leigjendur í skuldavanda verði áfram hátt hlutfall hjá embættinu. Ríkisstjórnin er búin að forgangsraða. Hún býður ungu fólki sem á engar eignir upp á vel útbúna fátæktargildru þar sem eini kosturinn er að safna skuldum til að standa undir reikningum heimilisins.