144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

slit aðildarviðræðna við ESB.

[13:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mun ekki tala fyrir utanríkisráðherra sem er sá sem mun flytja tillöguna og er fullfær um að svara fyrir það hvort og hvenær hún kemur fram, en hún hefur verið á þingmálaskránni frá því í haust og ég geri ráð fyrir því að hún komi fram innan fárra daga.

Því var lengi haldið fram um Sjálfstæðisflokkinn að hann vildi kæfa alla umræðu um Evrópusambandið, hann vildi ekki hleypa málinu í umræðuna. Þannig liðu mörg ár á sínum tíma. Síðan koma vinstri flokkarnir hér og mynda meiri hluta á þinginu og setja málið í formlegan farveg, setja það á dagskrá. Þá má ekki ræða um efnislegt inntak heldur verður að ræða formið. Ég kallaði eftir efnislegri umræðu um hvað það þýðir að ganga í Evrópusambandið. Og þegar við ræðum þá stöðu hvort Ísland á betur heima utan eða innan Evrópusambandsins held ég að öldurnar fari aðeins að lægja í þessu þjóðfélagi, þegar raunverulega fer fram hin efnislega umræða um þetta mál en ekki um form, um það að menn vilji leiða fram einhvern samning og sjá hvað kemur í ljós. Við sem stöndum fyrir þá stefnu að Ísland haldi sig utan Evrópusambandsins hræðumst ekki þá umræðu, (Forseti hringir.) efnislegu umræðu.