144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér var það fullljóst að hv. þingmaður hafði þennan bakgrunn og þessa reynslu. Ég var einungis að benda á að í því sem um var rætt, samræmd könnunarpróf, í minni ræðu, var verið að vísa til þeirra prófa sem nú þegar eru haldin.

Hvað varðar stöðu Námsmatsstofnunar annars vegar og aukin áhrif þeirrar hugmyndafræði þá tel ég að ekki sé hægt að lesa það út úr þeim áherslum sem voru í ræðu minni eða í frumvarpsdrögunum að einhverjar breytingar verði þar á. Þó er rétt að hafa í huga að því má halda fram að nokkuð skorti upp á upplýsingagjöf í menntakerfinu okkar, um stöðu þess og hvernig það hefur verið að þróast.

Ég er til dæmis ekkert sáttur við það, virðulegi forseti, að eitt helsta gagn í opinberri umræðu um stöðu íslenska skólakerfisins séu PISA-prófin. PISA-prófin eru sérstaklega hönnuð til að mæla ákveðna afmarkaða þætti skólastarfs. Þau leggja ekki mat á skólastarfið sjálft og reyndar langur vegur þar frá. Aftur á móti hefur borið á því í umræðu að menn hafa ruglað þessu tvennu saman og litið svo á að PISA-prófin séu einhvers konar mælikvarði á íslenska skólakerfið. Það eru þau ekki, en þau mæla ákveðna afmarkaða þætti.

Það skiptir því máli fyrir þetta mikilvæga kerfi, sem ég ætla að halda fram að sé einhver almikilvægasta starfsemi hér í landinu þegar horft er á efnahagslega og félagslega stöðu okkar, að við höfum einhverja mælikvarða um það hvernig okkur miðar áfram og að við notum þá mælikvarða skynsamlega. Samspil námsmats og námsgagna er auðvitað eðlilegt og við eigum að auka það þannig að við tryggjum, með því að mæla réttu hlutina og gera það skynsamlega, að námsgögnin styðji við starfið og öfugt, að námsgögnin og mælingarnar fari saman.

Hvað varðar kostnaðarþátt sveitarfélaganna þá er það alla vega mat mitt að það sé ekkert þarna sem eigi að kalla á aukinn kostnað, því að þetta er starfsemi sem áfram verður hjá ríkinu. En það er sjálfsagt fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að kanna það alveg sérstaklega eða kalla eftir því hvort um eitthvað slíkt er að ræða. Ég á ekki von á því, virðulegur forseti, en þakka hv. þingmanni fyrir þá ábendingu.