144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ekki hafa verið færð nein rök fyrir því að vopnaburður afbrotamanna hafi aukist hér svo að þörf sé á að vopna lögregluna af þeim sökum. Ekki hljómar það sannfærandi, sem heyrst hefur, að stríð í fjarlægum löndum útheimti að íslenskir lögreglumenn beri vopn við dagleg störf. Fregnir um þjálfun almennra lögreglumanna í beitingu skotvopna gefa þó tilefni til að ætla að verið sé að koma í kring breytingum í þá veru.

Vissulega er því svo farið að taki lögreglumenn almennt að bera vopn við dagleg störf má gera ráð fyrir að afbrotamenn muni auka vopnaburð sinn. Með því aukast líkur á háskalegum ofbeldisverkum með tilheyrandi hörmulegum afleiðingum. Það getur vart verið hlutverk lögreglunnar að hafa forustu um slíka öfugþróun og því öllum fyrir bestu að fyrirætlanir um aukinn vopnaburð lögreglunnar verði lagðar fyrir róða hið snarasta.

Þessu til viðbótar er vert að nefna að ábendingar hafa komið fram þess efnis að lagastoð fyrir vopnaburði sé veik og af því leiðir að reglur lögreglu um vopnaburð og beitingu vopna hljóta að standa á veikum grunni eins og hér hefur verið rakið. Nauðsynlegt er að fram fari athugun á þessu og umræða sem gæti leitt til breytinga í betra horf.

Það er enginn vafi á því að það er þörf á að bæta löggæsluna í landinu. Hlutverk lögreglumanna er vissulega afar mikilvægt en hlutskipti þeirra ekki ávallt eins gott og vert væri. Aukinn vopnaburður mundi hins vegar engu áorka til að bæta stöðu þeirra. Langtum nær væri að láta af því verða að gera átak í að fjölga lögreglumönnum og gera þá færari í að takast á við hlutverk sitt með aukinni og bættri fagmenntun. Það kæmi bæði samfélaginu og þeim til góða. Með því væri unnt að létta af lögreglumönnum starfsálagi sem án efa er víða mikið og jafnvel svo að ekki er alltaf unnt að sinna ýmsum lögreglustörfum eins og þörf er fyrir.

Í lokin langar mig að vekja athygli á því að Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur bent á að erlendis sé það mjög umdeilt hvort vopnaburður lögreglu auki eða dragi úr öryggi. Því má spyrja hvort þessi nýlega áhersla um aukinn vopnaburð sé í takt við raunveruleikann eins og hér kom upp í þjóðfélaginu og við ræddum meðal annars á fundi allsherjar- og menntamálanefndar.