144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[16:06]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja umræðu um stöðu heilbrigðismála.

Kostnaður við heilbrigðiskerfið er mikill og mun bara aukast á komandi árum. Þó að rekstur ríkissjóðs verði hallalaus í nánustu framtíð og þó að skuldir verði greiddar niður sem skapar svigrúm til aukinna fjárframlaga til heilbrigðiskerfisins þá dugar það ekki til. Til að viðhalda kerfinu og bjóða upp á eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi þarf mikla aukningu framlaga á næstu árum og áratugum. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að hafa í huga í þessari umræðu.

Á Íslandi borgar ríkið yfir 80% af heildarkostnaði heilbrigðiskerfisins, en það er hærra en meðaltal OECD-ríkja sem nemur um 72%. Er ekki hægt að hækka skatta til að mæta auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu? Það er sjálfsagt hægt upp að ákveðnu marki, en á að fara í stanslausar skattahækkanir næstu áratugi til að mæta útgjöldum sem munu alltaf halda áfram að aukast? Það er fullkomlega óraunhæft.

Það er í þessu andrúmslofti sem umræðan um fjölbreytt rekstrarform er sprottin. Ef við viljum að öll eða nánast öll heilbrigðisþjónusta sé ríkisrekin og að við bjóðum upp á eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi þá verðum við að svara þeirri spurningu hvaðan peningarnir eigi að koma, ekki bara næstu árin heldur áratugi.

Rekstrarform heilbrigðisþjónustu hefur verið ýmsu móti eins og ráðherra benti réttilega á. Einkarekstur að hluta til nýtist til dæmis í heilsugæslu, öldrunarþjónustu, heimahjúkrun og sérfræðiþjónustu. Auðvitað á ríkið að greiða áfram eða að langmestu leyti fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er, annað kemur ekki til greina og mikilvægt að hafa það á hreinu. Spurningin er hins vegar sú hvort ríkið þurfi að sinna allri heilbrigðisþjónustu.

Við þurfum að stíga varlega til jarðar í þessum efnum, verðum að tryggja að allir hafi rétt á og geti nýtt sér alla grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins óháð efnahag. Þeir sem minna mega sín mega ekki verða út undan. Kostnaður einstaklinga má ekki aukast frá því sem nú er. (Forseti hringir.) Þar erum við komin að þolmörkum. Það er sá útgangspunktur sem við verðum að byggja á.